Franski herinn kallaður út

ERLENT  | 26. mars | 8:43 
Herinn mun taka þátt í því að koma aðstoð til fólks sem þarf á því að halda í Frakklandi segir forseti Frakklands, Emmanuel Macron. Yfir 1.300 einstaklingar hafa látist úr kórónuveirunni þar í landi.

Herinn mun taka þátt í því að koma aðstoð til fólks sem þarf á því að halda í Frakklandi segir forseti Frakklands, Emmanuel Macron. Yfir 1.300 einstaklingar hafa látist úr kórónuveirunni þar í landi.

Frakkland hefur, líkt og svo mörg önnur ríki, komið á útgöngubanni og hefur skólum og veitingastöðum verið lokað í þeirri von að hægt verði að stöðva útbreiðslu veirunnar. Öll óþarfa ferðalög eru bönnuð og aðeins heimilt að fara í verslanir til að kaupa nauðsynjar og að hreyfa sig í næsta nágrenni við heimili sitt. 

Hernaðaraðgerðin nefnist Resilience og beinist einkum að því að veita aðstoð og styðja almenning sem og að veita aðstoð við opinbera þjónustu segir Macron. Á þetta bæði við meginland Frakklands sem og franskar eyjar.

„Samstaða og hugrekki mun koma okkur í gegnum þetta. Við erum enn á upphafsreit en munum þrauka, segir Macron og ítrekaði enn og aftur að Frakkland ætti í stríði.

Loka flugvöllum í París

Macron heimsótti bráðabirgðasjúkrahús í Mulhouse-héraði í gær en ástandið er mjög slæmt í héraðinu vegna veirunnar. „Öll þjóðin hefur verið kölluð til starfa í baráttunni við farsóttina,“ sagði Macron við starfsfólk þar og hét um leið því að aukið fé yrði sett í sjúkrahús landsins og rekstur þeirra.

Dregið verður verulega úr þjónustu neðanjarðarlesta (métro) og lesta í París (RER) og úthverfum og verður tveimur flugvöllum borgarinnar einnig lokað á sama tíma og reglur varðandi samkomubann verða hertar enn frekar. 

Sjá nánar hér

Markmiðið er að starfsemi lestarkerfa verði nægjanleg til þess að koma heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum framlínustarfsmönnum til vinnu á meðan kórónufaraldurinn geisar. Lögreglan er með eftirlit á lestarstöðvum til að koma í veg fyrir að fólk leggi upp í ónauðsynleg ferðalög. Ekki síst fólk sem vill forða sér út úr einangrun stórborganna. 

Flugvallarfyrirtækið ADP hefur tilkynnt að það muni loka Orly-flugvelli tímabundið en hann er helsti flugvöllur landsins hvað varðar innanlandsflug. Á þriðjudag hafði umferð um flugvöllinn minnkað um 92% og flugumferð um Charles de Gaulle hafði dregist saman um 89% en hann er helsti millilandaflugvöllur Frakklands. Áður hafði ADP lokað nánast öllum flugafgreiðslusölum flugvallanna vegna þess hversu dregið hefur úr flugferðum til og frá Orly og CDG. 

Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi greindu frá því í gær að 1.331 hafi látist af völdum kórónuveirunnar frá því fyrsta smitið kom upp þar í landi í janúar. Yfir 11.500 hafa greinst með veiruna, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Frakkar hafa á hverju kvöldi farið út á svalir eða út við glugga heimila sinna og klappað fyrir heilbrigðisstarfsmönnum. Í gærkvöldi var kirkjuklukkum einnig hringt, þar á meðal í Sacré-Cœur dómkirkjunni, í tíu mínútur. Með þessu vildu kirkjur landsins sýna samstöðu þjóðarinnar og minnast þess er Gabríel erkiengill birtist Maríu mey og tilkynnti henni að hún myndi fæða einkason Guðs, Jesú.

Frétt Le Monde

Frétt Le Parisien

France24

 

 

 

  

 

 

Þættir