Trump og Xi sameinaðir

ERLENT  | 27. mars | 6:51 
Kína og Bandaríkin eiga að standa sameinuð í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn banvæna sem hefur lagt heiminn í auðn, segir forseti Kína, Xi Jinping, en hann ræddi farsóttina við starfsbróður sinn í Bandaríkjunum, Donald Trump, í dag.

Kína og Bandaríkin eiga að standa sameinuð í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn banvæna sem hefur lagt heiminn í auðn, segir forseti Kína, Xi Jinping, en hann ræddi  farsóttina við starfsbróður sinn í Bandaríkjunum, Donald Trump, í dag. 

Ríkin tvö hafa deilt harkalega vegna kórónuveirunnar undanfarnar vikur en Xi og Trump ræddu saman í síma í dag þar sem Xi sagði Trump að kínversk yfirvöld vildu áfram deila upplýsingum og reynslu sinni með Bandaríkjunum.

Líkt og fram hefur komið eru staðfest smit í heiminum flest í Bandaríkjunum en samkvæmt Johns Hopkins háskólanum eru þau 85.991 talsins. Í Kína eru staðfest smit 81.782 og á Ítalíu 80.589. Aftur á móti eru dauðsföllin mun færri í Bandaríkjunum eða um 1.300 talsins á meðan á Ítalíu hafa 8.215 látist og 3.291 í Kína. 

Á sama tíma segir Trump að Bandaríkin muni ná sér hratt og örugglega af veirunni. Á blaðamannafundi í gær sagði Trump að ekki væri öruggt hversu margir hefðu greinst í Kína og bendir á málinu sínu til stuðnings fjölda þeirra sem hafa farið í sýnatöku í Bandaríkjunum. Alls hafa verið tekin 552 þúsund sýni samanlagt í öllum 50 ríkjum landsins. 

Trump fjallar um samtal hans og Xi á Twitter og segir að viðræður þeirra tveggja hafi verið afar góðar. Kína hafi gengið í gegnum mikið og hafi mikla þekkingu á kórónaveirunni. „Við vinnum náið saman. Mikil virðing,“ skrifar Trump á Twitter og tekur þar undir ummæli Xi í ríkisfjölmiðlum í Kína. 

Óvíst þykir hvort Trump takist að standa við ummæli sín um að hjól atvinnulífsins verði farin að snúast að nýju á páskadag en í Bandaríkjunum líkt og víðast hvar í heiminum hefur fólk verið beðið um að halda sig heima og atvinnulífið lamast að miklu leyti. Líkt og sést berlega þegar atvinnuleysistölur eru skoðaðar en alls voru skráningar á atvinnuleysisskrá 3,3 milljónir talsins í síðustu viku.

Kínversk yfirvöld hafa bannað útlendingum að koma til landsins og verður fólki, sem er af erlendu bergi brotið og með dvalarleyfi og vegabréfsáritun, bannað að snúa aftur til landsins frá og með miðnætti í dag. Er þetta gert til að koma í veg fyrir aðra smitöldu COVID-19.

Eins hefur verið dregið umtalsvert úr millilandaflugi og dregið úr heimiluðum fjölda farþega um borð í hverri vél.

Í Singapúr er nú unnið að því að herða viðurlög við því ef fólk brýtur gegn ákvæðum um fjarlægð milli einstaklinga. Ef aðgerðirnar ná í gegn á fólk yfir höfði sér allt að hálfs árs fangelsisvist virði það ekki reglurnar um bil á milli einstaklinga. 

 

 

 

 

 

 

  

 

  
 Þættir