Jákvæðar fregnir frá Ítalíu og Spáni

ERLENT  | 5. apríl | 17:08 
Þriðja daginn í röð fækkaði dauðsföllum á Spáni af völdum kórónuveirunnar og á Ítalíu hafa ekki jafn fáir látist á einum sólarhring í meira en tvær vikur.

Þriðja daginn í röð fækkaði dauðsföllum á Spáni af völdum kórónuveirunnar og á Ítalíu hafa ekki jafn fáir látist á einum sólarhring í meira en tvær vikur. Á Ítalíu hefur jafnframt sjúklingum á gjörgæsludeildum landsins fækkað annan daginn í röð. 

Alls létust 525 úr COVID-19 á Ítalíu síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið færri síðan 19. mars er 427 létust þar í landi. „Þetta eru góðar fréttir en við ættum ekki að slaka á taumhaldinu,“ segir yfirmaður almannavarna, Angelo Borrelli.

Jafnframt markaði dagurinn í dag nýtt upphaf hvað varðar inniliggjandi á sjúkrahúsum sem ekki þurfa á gjörgæsluþjónustu að halda vegna kórónuveirunnar. Eru þeir nú 29.010 talsins en voru 28.949 í gær. Á gjörgæslu eru 3.977 sjúklingar en voru 3.994 í gær. Alls hafa 15.887 látist af völdum veirunnar á Ítalíu. 

Á Spáni fækkaði dauðsföllum þriðja daginn í röð og létust 674 þar í dag. Alls eru 12.418 látnir á Spáni og skipar Spánn annað sætið á eftir Ítalíu á lista yfir fjölda látinna af völdum COVID-19. Sýktum fjölgaði um 4,8% og eru þeir 130.759 talsins og hefur þeim sem ná bata fjölgað um 11%, eru 38.080 talsins.

Þrátt fyrir að yfirvöld telji að þau hafi náð taumhaldi á dreifingu veirunnar hafa þau ákveðið að framlengja útgöngubannið til 25. apríl en það hefur gilt um 46,6 milljónir íbúa landsins frá 14. mars.

Þættir