Hækkanir á mörkuðum við afnám hafta

ERLENT  | 27. apríl | 8:29 
Talsverðar hækkanir eru á verðbréfamörkuðum í Evrópu eftir að ljóst varð að verulega hefur dregið úr dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar í álfunni sem þýðir að mörg ríki eru að draga úr höftum sem hafa gilt undanfarnar vikur.

Talsverðar hækkanir eru á verðbréfamörkuðum í Evrópu eftir að ljóst varð að verulega hefur dregið úr dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar í álfunni sem þýðir að mörg ríki eru að draga úr höftum sem hafa gilt undanfarnar vikur. Aftur á móti hefur verð á hráolíu lækkað að nýju vegna mikillar birgðasöfnunar og lítillar eftirspurnar. 

Yfir 205 þúsund manns hafa látist úr COVID-19 í heiminum og yfir 3 milljónir hafa verið staðfestar með smit. Í Bretlandi hafa ekki jafn fáir látist á einum sólarhring síðan 31. mars og á Spáni og Ítalíu er dánartalan sú lægsta í mánuð. Dauðsföllum fækkaði um meira en þriðjung á einum sólarhring í Frakklandi. Samkvæmt upplýsingum frá Þýskalandi í dag hafa ný smit og dauðsföll ekki verið jafn fá síðan 29. mars. 

Á Ítalíu mega smásöluverslanir og veitingastaðir hefja starfsemi 4. maí og eins má fólk heimsækja almenningsgarða og ættingja. Aftur á móti verða aðrar verslanir, svo sem fatabúðir, ekki opnaðar fyrr en þremur vikum síðar og eins söfn.

Á Spáni fengu börn að leika sér úti í fyrsta skipti í gær síðan um miðjan mars og í Sviss verða hárgreiðslustofur, nuddstofur, blómabúðir og garðyrkjustöðvar opnaðar að nýju í dag. 

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, segir að þar verði ekki hafist handa við að aflétta höftum fyrr en 15. maí og forsendan fyrir því sé að færri verði lagðir inn á sjúkrahús. 

Í Tókýó hækkaði Nikkei-hlutabréfavísitalan um 2,7% og Hang Seng-vísitalan hækkaði um 1,9%.

Á olíumarkaði hefur bandaríska WTI-hráolían lækkað um 12% í dag og er skráð á 14,85 Bandaríkjadali tunnan. Brent-Norðursjávarolía hefur lækkað um 4,9% og er nú skráð á 20,40 dali tunnan. 

 

Þættir