Fullt gjald fyrir skerta vistun

INNLENT  | 7. maí | 16:09 
Sérstök staða er komin upp á milli sjálfstætt starfandi leikskóla og Reykjavíkur og Garðabæjar. Sveitarfélögin hafa ekki gefið skýr svör um hvort þau muni koma til móts við foreldra sem fengu skerta þjónustu vegna faraldurs kórónuveirunnar en þeir fengu í dag rukkun um fullt gjald fyrir aprílmánuð.

Sérstök staða er komin upp á milli sjálfstætt starfandi leikskóla og Reykjavíkur og Garðabæjar. Sveitarfélögin hafa ekki gefið skýr svör um hvort þau muni koma til móts við foreldra sem fengu skerta þjónustu vegna faraldurs kórónuveirunnar en þeir fengu í dag rukkun um fullt gjald fyrir aprílmánuð. 

Alls eru um 1500 börn í um 20 sjálfstætt starfandi leikskólum í sveitarfélögunum og getur munurinn verið allt frá 4.000 krónum og upp í 40.000 krónur fyrir foreldra barna á ungbarnaleikskólum þar sem hærra gjald er tekið fyrir þjónustuna. 

Í myndskeiðinu er rætt við Elínu Jónsdóttur sem er stúdent með barn á ungbarnaleikskólanum Ársól. Henni reiknast til að sonur sinn hafi mætt að meðaltali 2 sinnum í viku í leikskólann í apríl og er afar ósátt við að borgin hafi ekki sama hátt á að koma til móts við foreldra eins og gert sé hjá leikskólum sem séu reknir af borginni. 

 

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla, segir að leikskólar hafi engin ráð til að afla sér tekna umfram þau gjöld sem sé samið um við sveitarfélögin að megi taka fyrir þjónustuna. Því sé furðulegt að þessi tvö sveitarfélög skuli ekki hafa komið til móts við leikskólana á meðan öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi gert það án vandkvæða. ítrekað hafi verið óskað eftir svörum frá því að faraldurinn fór að hafa áhrif á starfið.

Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundasviðs borgarinnar, komst ekki í viðtal vegna málsins en segir það í skoðun og að borgin muni funda með samtökunum eftir helgi. 

Þættir