Skólar opnaðir að nýju þrátt fyrir mótmæli kennara

ERLENT  | 15. maí | 6:30 
Finnsk skólabörn mættu að nýju í skólann í morgun eftir átta vikna sóttkví vegna kórónuveirunnar. Samtök kennara mótmæltu því að kennsla hæfist að nýju og töldu að það væri ekki öruggt fyrir hvorki kennara né börn að mæta til skóla strax.

Finnsk skólabörn mættu að nýju í skólann í morgun eftir átta vikna sóttkví vegna kórónuveirunnar. Samtök kennara mótmæltu því að kennsla hæfist að nýju og töldu að það væri ekki öruggt fyrir hvorki kennara né börn að mæta til skóla strax.

Aðeins rúmar tvær vikur eru þangað til sumarleyfi hefjast hjá grunnskólum í Finnlandi og enn eru í gildi strangar reglur um fjarlægð á milli fólks. 

Breytingar verða á frímínútum til að koma í veg fyrir að stórir hópar barna séu á skólalóðum á sama tíma og ónotuðum rýmum verður breytt í skólastofur til þess að meira rými skapist fyrir hvern nemanda að sögn menntamálaráðherra Finnlands, Li Andersson. 

Hún hefur lagt fram frumvarp til laga sem heimilar skólum að velja hvort kennt er í skólastofum eða í fjarkennslu í ágúst þegar skólar hefjast að nýju eftir sumarleyfi ef kórónuveirufaraldur geisar enn á þeim tíma. 

 

Alls hafa rúmlega sex þúsund smit verið staðfest í Finnlandi og 284 dauðsföll. Kennarasamband Finnlands segir að ekki sé ljóst hvort það sé börnum til hagsbóta að hefja skólastarf að nýju núna. Ekki sé hægt að tryggja öryggi nemenda og kennara á sem bestan hátt. 

Helsti farsóttarsérfræðingur Finna, Mika Salminen, segir aftur á móti að það sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja kennslu að nýju enda lítið um smit á milli barna. Um helmingur þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun um málið eru á sama máli.

 

Þættir