Morð á að vera nefnt sínu rétta nafni

ERLENT  | 29. maí | 6:49 
Bandaríska þjóðvarðliðið hefur verið sent til Minneapolis eftir vopnuð átök í kjölfar dráps lögreglu á George Floyd sem var drepinn af lögreglu á mánudag en hann var grunaður um að hafa framvísað fölsuðum 20 dala seðli. Allt er á suðupunkti í borginni og tóku fjölmargir þátt í mótmælum í gærkvöldi.

Bandaríska þjóðvarðliðið hefur verið sent til Minneapolis eftir vopnuð átök í kjölfar dráps lögreglu á svörtum manni. Allt er á suðupunkti í borginni og tóku fjölmargir þátt í mótmælum þar sem og víðar í Bandaríkjunum.

George Floyd, 46 ára starfsmaður veitingahúss, lést í haldi lögreglu á mánudag og myndskeið sem tekið var af vegfarenda sýnir hann kafna þegar lögreglumaður kraup á hálsi hans. Undanfarnar þrjár nætur hefur verið mótmælt og í gærkvöldi var kveikt í lögreglustöðinni þar sem fjórir lögreglumenn, sem tóku þátt í handtökunni, störfuðu. Þeim hefur öllum verið vísað úr starfi vegna dauða Floyd.

mbl.is

 

Á myndum af vettvangi sjást lögreglumenn yfirgefa brennandi lögreglustöðina þar sem fjölmennt lið mótmælenda fylgdist með. Allt í kring mátti sjá fólk fara yfir varnargirðingar, brjóta rúður í nærliggjandi húsum og rupla og ræna verslanir. Langstærsti hluti mótmælenda tók aftur á móti ekki þátt í skemmdarverkum heldur mótmælti friðsamlega. 

New York Times

Fólk er að mótmæla dauða Floyd sem var handtekinn grunaður um að hafa framvísað fölsuðum 20 dala seðli. Hann var handjárnaður og lagður í jörðina þar sem einn lögreglumanna hélt honum þangað til Floyd missti meðvitund. Hann var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús. Myndskeiðið sýnir Floyd grátbiðja lögreglumanninn um að fara af sér þar sem hann nái ekki andanum. 

Fóru húsavillt og skutu unga konu til bana

En það eru fleiri mál sem brenna á íbúum Bandaríkjanna þegar kemur að ofbeldi í garð svartra af hálfu lögreglunnar. Meðal annars svört kona, Breonna Taylor, 26 ára bráðaliði, sem var skotin til bana af lögreglu í Kentucky þegar lögregla gerði húsleit á heimili hennar. Lögreglan hafði farið í húsavillt.

Taylor var skotin átta sinnum af lögreglumönnum sem ruddust inn í íbúð hennar í Louisville 13. mars. Þeir voru með húsleitarheimild í tengslum við fíkniefnarannsókn en engin fíkniefni fundust í íbúðinni. Fjölskylda Taylor lagði fram kæru í síðasta mánuði og kemur þar fram að þeir hafi ekki verið að eltast við Taylor né heldur unnusta hennar. Heldur beindist málið að einstakling sem þegar var í haldi lögreglu og bjó ekki einu sinni í fjölbýlishúsinu. 

Að sögn lögreglu í Louisville var skotið á lögreglu og þeir hafi verið að svara skothríð þegar þeir skutu Taylor átta sinnum.

Frétt BBC

Ahmaud Arbery, sem var 25 ára, var skotinn til bana þegar hann var úti að skokka 23. fe­brú­ar. Feðgarn­ir Greg­ory McMichael og Tra­vis son­ur hans voru ákærðir fyr­ir morð 7. maí. Stuttu áður en Arbery var skot­inn til bana höfðu feðgarn­ir, sem voru hvít­ir og vopnaðir, mætt Arbery þar sem hann var á hlaup­um í Sa­tilla Shor­es-hverf­inu en þeir voru á pall­bíl. 

Greg­ory McMichael sagði lög­reglu að hann hafi talið að Arbery bæri ábyrgð á nokkr­um inn­brot­um á svæðinu. Fjölskylda Arbery efast hins vegar ekki um að kynþáttahatur hafi verið ástæða drápsins enda hafi Arbery aðeins verið úti að hlaupa og ekki unnið sér neitt til sakar.

Frétt mbl.is

 

Síðdegis í gær söfnuðust hundruð saman og tóku þátt í mótmælagöngu í Minneapolis en á sama tíma sagði lögregla í tvíburaborginni St. Paul að mikið væri um íkveikjur og skemmdarverk. Síðar um kvöldið safnaðist stór hópur saman fyrir utan lögreglustöðina sem lögreglumennirnir fjórir störfuðu. 

 

Skömmu eftir klukkan 22 var ákveðið að rýma lögreglustöðina í öryggisskyni að því er segir í tilkynningu frá lögreglustjóra borgarinnar. Lögreglan segir að rannsókn á dauða Floyd standi yfir og varar við því að ofbeldi verði ekki liðið. 

„Við vitum að það ríkir mikil reiði. Við vitum að það eru margir ósáttir,“ segir lögreglustjórinn í St. Paul, Todd Axtel. „En við getum ekki liðið að fólk nýti tækifærið til að fremja glæpi,“ bætti hann við. 

 

Að beiðni yfirvalda í báðum borgum var ákveðið að óska eftir aðstoð þjóðvarðliðsins til að tryggja öryggi í borgunum tveimur.

Ríkisstjórinn í Minnesota, Tim Walz, óskaði eftir aðstoð hundraða þjóðvarðliða og eins ríkislögreglunnar. „Dauði  George Floyd á að verða til þess að réttlætið nái fram að ganga og breytinga á kerfinu en ekki fleiri dauðsfalla og eyðileggingar,“ segir Walz.

 

Fjölskylda Floyds hefur krafist þess að fjórmenningarnir verði sóttir til saka og ákærðir fyrir manndráp. „Ég vil að allir þessir fjórir lögreglumenn verði handteknir í kvöld. Að þeir verði allir dæmdir fyrir morð. Ég vil dauðarefsingu,“ sagði bróðir Floyds, Philonise Floyd, í viðtali við CNN. 

„Ég hef ekki sofið í fjóra daga og þessir lögreglumenn þeir eru heima sofandi,“ sagði hann og bætti við: „Ég get ekki liðið það.“

CNN

Tveir þekktir leiðtogar svartra í Bandaríkjunum, Jesse Jackson og Al Sharpton, eru komnir til Minneapolis og hvetja fólk til þess að mótmæla. „Við sögðum ríkisstjóranum að morð eigi að vera nefnt sínu rétta nafni — morð,“ sagði Jackson þegar hann ávarpaði samkomu í baptista kirkju í borginni. „Þegar þú heldur fæti á hálsi einhvers þangað til hann kafnar þá hefur þú myrt hann.“

 

Málið er rannsakað af bæði embætti saksóknara í Minnesota sem og alríkislögreglu og er stefnt að ljúka rannsókn eins fljótt og auðið er. Að sögn Ericu MacDonald, ríkissaksóknara í Minnesota, er rannsóknin forgangsverkefni. „Svo það sé á hreinu þá fylgjast bæði Donald Trump forseti og William Barr dómsmálaráðherra báðir með rannsókninni beint,“ segir MacDonald.

 

Blaðafulltrúi Hvíta hússins, Kayleigh McEnany, segir að forsetanum hafi brugðið mjög og reiðst þegar hann sá myndskeiðið og hann hafi krafist þess að rannsóknin yrði sett í algjöran forgang. „Hann vill að réttvísin nái fram að ganga,“ segir McEnany. 

 

Til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu í Lake Street-hverfinu í Minneapolis í gærkvöldi og beitti lögregla táragasi og gúmmíkúlum á mótmælendur sem kveiktu í verslunum og rændu og rupluðu. Einn var skotinn til bana og er rannsakað hvort verslunareigandi hafi skotið hann til bana. Einhverjar verslanir hafa ákveðið að loka verslunum og eins hefur póstþjónustan ákveðið að hætta starfsemi á ákveðnum svæðum. Jafnframt eru strætisvagnar hættir að keyra inn í hverfi þar sem óeirðirnar eru.

Þættir