Ástandið muni versna í kvöld

ERLENT  | 30. maí | 18:41 
Verið er að kalla til þúsundir hermanna úr bandaríska þjóðvarðliðinu til þess að mæta gríðarlegum óeirðum víða um Bandaríkin. Verst er ástandið þar sem óeirðirnar eiga upptök sín, í Minnesota, en þar er því spáð að í kvöld nái óspektirnar nýjum hæðum.

Ríkisstjóri Minnesota, Tim Walz, sagði í morgun frá því að hann hygðist kalla til þúsundir hermanna úr bandaríska þjóðvarðliðinu til viðbótar við þá sem þegar hafa verið sendir á vettvang í Minneapolis og Saint Paul, þar sem ríkir dæmalaust óeirðarástand. 

Það sem hófst sem mótmæli í upphafi vikunnar, vegna dauða George Floyd í höndum lögreglu á svæðinu, hefur breyst í einhverja mestu óeirðaöldu sem gengið hefur yfir í Bandaríkjunum á síðustu árum. Tugir þúsunda hafa flykkst út á götur Minneapolis síðustu daga þrátt fyrir útgöngubann, sem var til komið vegna mótmælanna, en ekki kórónuveiru.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2020/05/29/utgongubann_i_minneapolis/

Að upplagi er verið að mótmæla lögregluofbeldi en við hóp mótmælenda hefur bæst fjöldi fólks bæði frá Minnesota en einnig frá öðrum stöðum í Bandaríkjunum. Yfirvöld í Minnesota hafa handtekið fjölda manns og segja flesta hinna handteknu vera komna að utan. 

Versnar í kvöld

Óánægjan stafar af ýmsu en ljóst er að eyðileggingin er gríðarleg. Þá er því spáð að ástandið eigi aðeins eftir að versna: Walz ríkisstjóri hefur sagt að óspektirnar hingað til muni blikna í samanburði við það sem hann óttast að muni eiga sér stað í kvöld.

Sem fyrr segir breiðist óeirðaaldan út um Bandaríkin eins og eldur í sinu: New York Times segir frá því að í Atlanta og New York hafi eldur verið lagður að lögreglubílum og að í San José og Detroit hafi stórum umferðargötum verið lokað af mótmælendum.

 

Í Milwaukee kyrjaði fjöldinn: „I can’t breathe“ og vísaði þar til hinstu orða hins látna Floyd. Í Portland var kveikt í opinberum byggingum. Í Houston voru nærri tvö hundruð handteknir, sem tóku þátt í því sem lögregluyfirvöld kölluðu ólöglegar samkomur.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur ríkin til að standa á sínu, berjast og handtaka „þá slæmu“. Hann leggur áherslu á að þau ríki sem eru hvað verst leikin af mótmælunum séu undir stjórn demókrata, eins og gildir um Minneapolis, en þar er demókrati borgarstjóri.

 

 

Þættir