Í fyrsta skipti frá stríðslokum

ERLENT  | 3. júní | 7:16 
Mótmælendur virtu útgöngubann að vettugi víða um Bandaríkin í gærkvöldi og nótt á sama tíma og forseti landsins hafnaði gagnrýni um valdníðslu og sakar fjölmiðla um falsfréttir. Í New York er útgöngubann í gildi í viku. Eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í seinni heimsstyrjöldinni.

Mótmælendur virtu útgöngubann að vettugi víða um Bandaríkin í gærkvöldi og nótt á sama tíma og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hafnaði gagnrýni um valdníðslu og sakar fjölmiðla um falsfréttir. Í New York er útgöngubann í gildi í viku. Eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í seinni heimsstyrjöldinni.

Pattstaða ríkir milli lögreglu og mótmælenda allt frá New York til Los Angeles vegna dauða George Floyds í síðustu viku en allt frá því Floyd var drepinn af lögregluþjóni í Minneapolis hefur verið mótmælt í Bandaríkjunum á hverju kvöldi. Mótmælin hafa færst til annarra landa þar sem fólk er ósátt við það kynþáttamisrétti sem enn er við lýði í Bandaríkjunum og víðar.

 

Mjög dró úr tilkynningum um gripdeildir og ofbeldi sem settu mark sitt á mótmælin um helgina.

Tugþúsundir komu saman í Houston í gær til að minnast Floyds en hann ólst upp í borginni og fer útför hans fram þar í næstu viku.

Frétt mbl.is

Borgarstjórinn í Houston, Sylvester Turner, sagði á fundinum að dagurinn í dag væri tileinkaður fjölskyldu George Floyds. „Við viljum að þau viti að George lést ekki til einskis,“ sagði Turner en talið er að um 60 þúsund hafi komið saman á fundinum.

Barnsmóðir Floyds, Roxie Washington, ávarpaði fundinn og sagði að hún vildi að réttlætið myndi ná fram að ganga fyrir þennan góða mann. „Engu skiptir hvað aðrir halda. Hann var góður,“ sagði Washington.

 

Í New York, en þar var útgöngubannið framlengt í viku og hefur það ekki gerst síðan í seinni heimsstyrjöldinni, virtu fjölmargir útgöngubannið að vettugi en það tók gildi klukkan 20 að staðartíma. Á miðnætti að íslenskum tíma. Þess í stað safnaðist fólk saman og gekk friðsamlega um götur og stræti Manhattan og Brooklyn.

 

Þeir sem reyndu að fara yfir brúna á Manhattan voru stöðvaðir af lögreglu beggja vegna brúarinnar en fengu að lokum að snúa aftur til Brooklyn, samkvæmt New York Times.

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, sagði í samtali við CNN að kvöldið hafi verið mun rólegra en kvöldið á undan en það einkenndist af gripdeildum og eyðileggingu. Hann þakkaði lögreglu fyrir hennar hlut því þrátt fyrir að fjölmennt lið lögreglu hafi verið á vakt lét hún lítið fyrir sér fara.

 

Minnesota-ríki hefur ákveðið að hefja opinbera rannsókn á því hvort lögreglan í Minneapolis beiti skipulagðri mismunun gagnvart minnihlutahópum. Greint er frá þessu í Twitter-færslu ríkisstjórans, Tim Walz. Þar segir að rannsóknin nái tíu ár aftur í tímann og vísar hann til ummæla fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, sem hvatti til slíkrar rannsóknar. Bush sagði einnig að hlusta yrði á raddir þeirra mörgu sem syrgja og eru í sárum. 

 

Í Los Angeles tóku lögreglumenn og borgarstjórinn, Eric Garcetti, þátt í friðsamlegum mótmælum og knékrupu ásamt mótmælendum. Á fundi með leiðtogum kristilegra samtaka sagði Garcetti að mismunun ætti ekki að líðast. Síðar um kvöldið komu um 200 mótmælendur saman fyrir utan skrifstofu Garcetti og neituðu að yfirgefa svæðið. Einhverjir þeirra voru handteknir. 

 

Í Washington DC tóku þúsundir þátt í friðsamlegum mótmælum og þrátt fyrir að útgöngubann hafi tekið gildi klukkan 19 mátti enn heyra í mótmælendum á sama tíma og þjóðvarðliðar voru sýnilegir á götum úti í kringum Hvíta húsið og þyrlur sveimuðu þar yfir. Í sjónvarpi mátti sjá lögreglu úða táragasi að mótmælendum skömmu eftir miðnætti en samt sem áður var fremur rólegt yfir borginni. 

Þetta var áttundi dagurinn þar sem mótmælt er víða um Bandaríkin vegna dauða George Floyds en líkt og fram hefur komið lést hann er lögreglumaður þrengdi að öndunarvegi hans í átta mínútur og 46 sekúndur. Lögreglumaðurinn hefur verið ákærður fyrir morð en mótmælendur segja það ekki nóg. Heldur eigi að ákæra þrjá lögreglumenn sem stóðu aðgerðalausir hjá á meðan félagi þeirra drap Floyd. 

Trump ýjaði að því á mánudagskvöldið að herinn yrði kallaður út ef ekki drægi úr ofbeldinu sem hefur fylgt í kjölfar mótmæla. Tæplega helmingur ríkja Bandaríkjanna hefur kallað út þjóðvarðliða.  

 

 

 

 


New York Times

CNN

BBC

Þættir