Hefur litla trú á miðvörðum Chelsea (myndskeið)

ÍÞRÓTTIR  | 3. júlí | 10:49 
West Ham gerði sér lítið fyrir og vann 3:2-sigur gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðastliðinn miðvikudag.

West Ham gerði sér lítið fyrir og vann 3:2-sigur gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á síðastliðinn miðvikudag. Willian skoraði tvívegis fyrir Chelsea í leiknum en það voru þeir Thomas Soucek, Michail Antonio sem skoruðu fyrir West Ham áður en Andriy Yarmolenko skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu.

Chelsea er í harðri barátt um Meistaradeildarsæti en liðið er með 54 stig í fjórða sæti deildarinnar. Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans, ræddi leik West Ham og Chelsea í Vellinum á Síminn Sport við sérfræðinga þáttarins, þá Bjarna Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen.

„Ég hef sagt það frá upphafi tímabilsins að þá bráðvantar sterkt miðvarðapar,“ sagði Eiður Smári. „Þá vantar ekki bara einn miðvörð heldur tvo í byrjunarliðið. Svo fannst mér ansi spænskur bragur yfir Marcos Alonso í þessum leik í varnarleiknum,“ bætti Eiður Smári við sem var ekki hrifinn af varnartilburðum Spánverjans.

„Þú sérð hvernig Chelsea-menn vilja spila og hvernig Frank Lampard vill byggja upp spilið frá aftasta manni. Annað hvort eru öftustu leikmenn vallarins ekki með nægilega mikið sjálfstraust eða þá gæði til þess að gera það. Heilt yfir finnst mér enginn af miðvörðum Chelsea sannfærandi,“ sagði Eiður Smári.

Leikur West Ham og Chelsea var í beinni útsendingu á Síminn Sport.

Þættir