Mótmæltu lögum gegn mótmælum

ERLENT  | 10. júlí | 8:16 
Níu voru handteknir í óeirðum í Aþenu en þau brutust út í kjölfar mótmæla vegna setningu nýrra laga í Grikklandi varðandi mótmæli í landinu.

Níu voru handteknir í óeirðum í Aþenu en þau brutust út í kjölfar mótmæla vegna setningu nýrra laga í Grikklandi varðandi mótmæli í landinu.

Lögregla beitti táragasi á mótmælendur fyrir utan þinghúsið og handtók nokkra mótmælendur eftir að lítill hópur þeirra kveikti í flugeldum. Sex lögreglumenn meiddust í óeirðunum.

Frumvarpið var samþykkt á þingi seint í gærkvöldi en helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Syriza, heldur því fram að lögregla hafi beitt óþarflega miklu valdi gagnvart friðsamlegum mótmælendum. 

Að sögn lögreglu tóku um 12 þúsund þátt í mótmælunum en meðal þess sem kveðið er á um í nýju lögunum er minna rými sem veitt er til að mótmæla og heimildir lögreglu til að stöðva mótmæli útvíkkaðar.

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, segir að nauðsynlegt hafi verið að setja lögin til þess að koma skikki á tugi mótmæla sem hafa gríðarleg áhrif á athafnalíf höfuðborgarinnar á hverju ári. 187 af 288 þingmönnum sem voru í þingsal samþykktu frumvarpið. 

Þættir