Leikkonan Kelly Preston látin

FÓLKIÐ  | 14. júlí | 8:28 
Bandaríska leikkonan Kelly Preston, sem lék meðal annars í kvikmyndunum Jerry Maguire og Twins lést í gær. Banamein hennar var brjóstakrabbamein.

Bandaríska leikkonan Kelly Preston, sem lék meðal annars í kvikmyndunum Jerry Maguire og Twins lést í gær. Banamein hennar var brjóstakrabbamein. Eiginmaður hennar, leikarinn John Travolta, greindi frá þessu á Instagram í gær. Hún var 57 ára gömul.  

Hann sagði erfitt að færa þessar fregnir en því miður hafi eiginkona hans lotið í lægra haldi fyrir brjóstakrabbameini eftir tveggja ára baráttu. Hún hafi barist kröftuglega með stuðningi marga. 

 

Tímaritið People hefur eftir ættingjum að Preston hafi látist í gærmorgun. Hún hafi farið leynt með veikindin en verið í læknismeðferð í töluverðan tíma við krabbameininu. Þar hafi hún notið stuðnings nánustu fjölskyldu og vina. 

 

Kelly Preston fæddist 13. október árið 1962 á  Hawaii. Hún lærði leiklist við háskóla Suður-Kaliforníu. Hún varð heimsfræg fyrir hlutverk sitt í Twins árið 1988 en tvíburana í myndinni léku þeir Arnold Schwarzenegger og Danny DeVito. Preston lék í tugum kvikmynda og sjóvarpsþátta en hún lék meðal annars í rómantísku gamanmyndinni Jerry Maguire ásamt Tom Cruise og Renee Zellweger.

Travolta og Preston gengu í hjónaband 1991 og eignuðust þrjú börn. Elsti sonur þeirra lést árið 2009 aðeins 16 ára að aldri.

 

Frétt mbl.is

Þættir