Beittu táragasi á borgarstjórann

ERLENT  | 24. júlí | 10:44 
Táragasi var beitt á mótmælendur í bandarísku borginni Portland í gær og meðal þeirra sem fengu yfir sig táragas er borgarstjórinn í Portland en hann var meðal þátttakenda í mótmælum gegn lögregluofbeldi í borginni.

Táragasi var beitt á mótmælendur í bandarísku borginni Portland í gær og meðal þeirra sem fengu yfir sig táragas er borgarstjórinn í Portland en hann var meðal þátttakenda í mótmælum gegn lögregluofbeldi í borginni. 

Alríkislögreglumenn sem forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sendi til borgarinnar beittu hörku gagnvart mótmælendum í gær að sögn borgarstjórans, Ted Wheeler. Hann segir að óþarfahörku hafi verið beitt.

„Ég ætla ekki að ljúga – það svíður. Það er erfitt að anda,“ segir Wheeler í viðtali við New York Times. Hann segist ekki hafa orðið var við neitt sem kallaði á slík viðbrögð hermannanna.

Þúsundir tóku þátt í mótmælum í Portland í gærkvöldi en að sögn lögreglunnar í borginni köstuðu mótmælendur logandi hlutum að dómshúsinu í borginni. 

Wheeler, sem er demókrati, er óvinsæll meðal margra mótmælenda vegna þess að lögreglan í borginni hefur sjálf notað táragas á mótmælendur og hætti því ekki fyrr en dómari bannaði það. 

 

Þættir