Óvíst með töfralausn

TÆKNI  | 4. ágúst | 6:59 
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varar við því að ekki sé víst að það finnist einhver töfralausn gegn kórónuveirufaraldrinum þrátt fyrir kapphlaup við tímann við þróun bóluefna.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varar við því að ekki sé víst að það finnist einhver töfralausn gegn kórónuveirufaraldrinum þrátt fyrir kapphlaup við tímann við þróun bóluefna.

Stofnunin hvetur stjórnvöld og almenning til þess að gera það sem hægt er að gera í baráttunni við veiruna. Að halda áfram að taka sýni, smitrakningu, viðhalda líkamlegri fjarlægð og vera með andlitsgrímu. 

„Við vonum öll að það verði til bóluefni sem getur varið fólk við sýkingum,“ segir framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus. „Hins vegar er engin töfralausn til á þessari stundu og mögulega verður aldrei nein slík,“ bætti hann við á blaðamannafundi í dag. 

Hann tekur í sama streng og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, um almennar sóttvarnir og gildi þeirra í baráttunni við COVID-19.

Frétt mbl.is

Eins og staðan er núna eru það einstaklingsbundnar sóttvarnir sem duga í baráttunni við veiruna. Framfylgið þeim, segir Tedros.

Tæplega 690 þúsund einstaklingar eru látnir af 18,1 milljón sem hefur sýkst af COVID-19 frá því fyrsta smitið greindist í kínversku borginni Wuhan í desember. 

 

Snemma í maí fór WHO að þrýsta á kínversk yfirvöld um að hleypa sérfræðingum stofnunarinnar að rannsóknum á upptökum veirunnar í dýrum. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna sendi farsóttarsérfræðing og sérfræðing í dýraheilbrigði til Peking 10. júlí til að leggja grunninn að rannsókninni á því hvernig veiran barst í manneskjur. Að sögn Tedros er undirbúningnum að ljúka. 

Að hans sögn hafa WHO og kínverskir sérfræðingar gert uppdrátt að skilmálum rannsóknarinnar og hvernig eigi að standa að henni. Alþjóðlegt teymi tekur þátt í rannsókninni og verður henni stýrt af WHO. 

Vísindamenn telja að veiran hafi borist frá dýrum í fólk, jafnvel á markaði sem selur dýraafurðir til manneldis í Wuhan. Kínversk yfirvöld sögðu það líklegustu skýringuna fljótlega eftir að veiran greindist í fólki en það hefur aldrei verið staðfest.

Þættir