Allt á suðupunkti í Hvíta-Rússlandi

ERLENT  | 10. ágúst | 10:40 
Pólsk stjórnvöld hafa farið fram á að neyðarfundur verði haldinn meðal leiðtoga ríkja Evrópusambandsins vegna stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.

Pólsk stjórnvöld hafa farið fram á að neyðarfundur verði haldinn meðal leiðtoga ríkja Evrópusambandsins vegna stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Til átaka kom á milli mótmælenda og óeirðalögreglu í gærkvöldi. Yfir 300 voru handteknir og einn mótmælandi lést er hann varð fyrir lögreglubifreið.

Forsetakosningar fóru fram í Hvíta-Rússlandi í gær og var Alexander Lúka­sj­en­kó endurkjörinn forseti með rúmlega 80% atkvæða. 

 

Frétt mbl.is

Viasna-mannréttindasamtökin segja að ungur mótmælandi hafi hlotið höfuðáverka þegar lögreglubifreið ók á hann og ekki hafi tekist að bjarga lífi hans. Af þeim rúmlega 300 mótmælendum sem voru handteknir tóku um 150 þátt í mótmælum í höfuðborginni Minsk. Tugir særðust í átökunum að sögn Sergeis Sjís, talsmanns Viasna. Talskona innanríkisráðuneytisins, Olga Chemodanova, neitar því að mótmælandi hafi látist og segir í samtali við AFP-fréttastofuna: „Það lést enginn.“

 

Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, segir í yfirlýsingu að nauðsynlegt sé fyrir ríki ESB að styðja við bakið á almenningi í Hvíta-Rússlandi sem krefjist frelsis. Hann hefur sent Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og forseta Evrópuráðsins, Charles Michel, beiðni um að leiðtogar ríkjanna komi saman og ræði ástandið í Hvíta-Rússlandi.

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, fagnaði hins vegar niðurstöðu kosninganna í Hvíta-Rússlandi og hefur sent starfsbróður sínum hamingjuóskir.

Hvíta-Rússland á landamæri að Rússlandi í austri, Úkraínu í suðri og ESB-ríkjunum Póllandi, Litháen og Lettlandi í norðri og vestri.

Í sameiginlegri yfirlýsingu forseta Póllands og Litháens, Andrzej Duda og Gitanas Nauseda, frá því í gærkvöldi eru stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hvött til að virða lýðræðið og rétt fólks til að tjá skoðanir sínar. 

Frétt mbl.is

Lúka­sj­en­kó lýsir aftur á móti þeim sem tóku þátt í mótmælunum sem skepnum sem hlýði fyrirskipunum erlendis frá. Fylgst sé með þeim sem taki þátt og upplýsingar um þá skráðar.

Hann segir að áskoranir berist erlendis frá þar sem hjörðinni er stýrt og segir að hann muni aldrei heimila að landinu verði sundrað.

Ursula von der Leyen hefur hvatt yfirvöld í Hvíta-Rússlandi til að birta réttar upplýsingar varðandi niðurstöður kosninganna og að stjórnvöld verði að virða grundvallarréttindi fólks.

 

 

Þættir