Dreifði fölsuðu myndbandi af Biden

ERLENT  | 16. september | 14:57 
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur sagt forsetaframbjóðanda Demókrata Joe Biden ætla sér að hvetja til ofbeldisfullra glæpa, dreifði fölsuðu myndskeiði á samfélagsmiðlinum Twitter í dag þar sem Biden virðist spila lagið „Fuck Da Police“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur sagt forsetaframbjóðanda Demókrata Joe Biden ætla sér að hvetja til ofbeldisfullra glæpa, dreifði fölsuðu myndskeiði á samfélagsmiðlinum Twitter í dag hvar Biden virðist spila rapplag sem inniheldur texta sem er andsnúinn lögreglunni. 

Í falsaða myndbandinu, sem má sjá fyrir neðan (myndskeiðið fyrir ofan sýnir við hvaða lag Biden steig nokkur létt spor í raun), sem Twitter merkti síðar sem falsefni (e. manipulated media), stendur Biden í ræðustól, tekur farsímann sinn upp og segir áhorfendunum: „Ég hef bara eitt að segja.“

Hann virðist þá spila mótmælalag hipphoppsveitarinnar N.W.A „Fuck Tha Police“, sem mætti þýða á íslenska tungu sem „Fari lögreglan til fjandans“, og dansa örlítið, brosandi. 

Eftir nokkrar sekúndur segir hann: „Ef ég hefði hæfileika einhverra þessara manna væri ég kosinn forseti við mikinn fögnuð.“

 

Spilaði Despacito, ekki Fuck Da Police

Í færslunni sem hann setur inn með myndbandinu skrifar Trump: „Kína slefar núna.“

Eins og áður segir er myndbandið falsað. Myndbrotið er tekið úr kosningaferð Bidens til Flórída í dag. Þar tók Biden upp símann sinn og spilaði nokkrar sekúndur af lagi Luis Fonsi, „Despacito“, en Fonsi hafði rétt áður kynnt frambjóðandann á svið. 

Trump hefur haldið því fram að hann ætli sér að halda Ameríku öruggri frá vinstrisinnuðum múg og er það eitt af hans aðalkosningaloforðum.

 

 

 

Þættir