Skopmynd af Erdogan á nærbrókinni

ERLENT  | 28. október | 13:37 
Frakkar og Tyrkir eru komnir í hár saman og greinilegt að hvorugt ríkið ætlar að gefa eftir. Málið snýst meðal annars um skopteikningar af Múhameð spámanni og forseta Tyrklands á síðum ádeiluritsins Charlie Hebdo.

Frakkar og Tyrkir eru komnir í hár saman og greinilegt að hvorugt ríkið ætlar að gefa eftir. Málið snýst meðal annars um skopteikningar af Múhameð spámanni og forseta Tyrklands á síðum ádeiluritsins Charlie Hebdo. 

Recep Tayyip Erdogan hótaði í dag aðgerðum, bæði lögsókn og stjórnmálalegum, vegna forsíðumyndar Charlie Hebdo. Þar er Erdogan, sem er 66 ára gamall, sýndur á nærbrókinni að drekka bjór og kíkja undir pilsfald konu. Textinn er ouuh, spámaðurinn!

Frönsk yfirvöld svara hótunum Erdogans fullum hálsi og að sögn talsmanns ríkisstjórnarinnar, Gabriel Attal, verður hvergi hvikað frá baráttunni gegn íslömskum öfgamönnum þrátt fyrir gagnrýni forseta Tyrklands og hótanir úr þeirri átt. 

 

„Frakkland mun aldrei hafna grundvallarhugmyndum og gildum sínum,“ sagði Attal að loknum ríkisstjórnarfundi. Hann segir að Evrópa standi með Frakklandi í baráttunni gegn ofbeldisverkum af hálfu íslamista í kjölfar þess að kennari var afhöfðaður úti á götu í friðsælu úthverfi Parísarborgar 16. október.

Frétt mbl.is

Skopmyndir Charlie Hebdo hafa ítrekað vakið reiði í múslímaríkjum og eru nýjustu myndbirtingar blaðsins þar engin undantekning. Hvað varðar myndina af Erdogan segist hann ekki sjálfur hafa séð myndina enda muni hann aldrei gera slíkri útgáfu það til geðs. Þetta væri samt viðbjóður. 

 

„Ég hef ekkert að segja við þessi illmenni sem vilja móðga minn ástkæra spámann á þennan hátt,“ sagði Erdogan við flokksbræður sína á þingi. „Ég er sorgmæddur og svekktur, ekki yfir þessari viðbjóðslegu árás á mig persónulega, heldur vegna ósvífninnar í garð spámanns okkar sem við elskum meira en okkur sjálf,“ bætti Erdogan við.

Flestir íbúar Tyrklands eru múslímar og undir stjórn Erdogans hefur landið leitað meira í átt að íhaldssamri harðlínustefnu. Þetta fer illa saman við skoðanir Frakka og forseta landsins, Emmanuel Macron, sem ver tjáningarfrelsið og frelsi fólks til þess að hafa trú í flimtingum.

Embætti ríkissaksóknara í Ankara hefur tilkynnt að það sé að hefja rannsókn á birtingu myndarinnar sem birt er á sama tíma og deilur ríkjanna hafa hríðversnað. Ekki síst vegna aðgerða franskra yfirvalda í garð íslamista eftir morðið á sögukennaranum um miðjan mánuð. 

Erdogan hefur hvatt fólk til þess að sniðganga franskar vörur og segir að Macron þurfi á geðrannsókn að halda vegna harðrar andstöðu sinnar í garð harðlínu-íslamista.

Leiðtogar ýmissa Evrópuríkja fordæmdu ummæli Erdogans en hann svaraði fyrir sig með því að líkja þjóðarleiðtogum Evrópu við fasista í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar, sem stæðu að ofsóknum gegn múslimum. Frakkar svöruðu þessu með því að kalla sendiherra sinn heim frá Ankara. 

Frétt mbl.is

Bandaríkjastjórn lýsti í gær yfir von um að Frakkar og Tyrkir gætu létt á spennunni en ríkin þrjú eru öll aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Sagði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins að deilur milli bandamanna þjónuðu engum tilgangi en styrktu einungis andstæðinga bandalagsins. Sagði hann hins vegar ekki hvaða afstöðu Bandaríkjastjórn hefði til deilnanna.

Samskipti Frakklands og Tyrklands voru stirð fyrir, þar sem Macron hefur verið óhræddur við að gagnrýna utanríkisstefnu Erdogans, þar á meðal afskipti Tyrkja í Sýrlandi, Lýbíu og í átökunum í Nagornó-Karabak-héraði.

Þá hafa Frakkar lagt mikla áherslu á að Evrópusambandið standi við bakið á Grikkjum og Kýpverjum í deilum þeirra við Tyrki um orkuauðlindir í austurhluta Miðjarðarhafs.

Þættir