Fimmta stigs bylur nálgast Mið-Ameríku

ERLENT  | 17. nóvember | 5:22 
Fellibylurinn Jóta nálgast nú land í Mið-Ameríku. Veðurfræðingar vara við „hugsanlegum hamfaravindi“ og að stormurinn geti ógnað lífi og limum fólks. Vindhraði er nú 72 metrar á sekúndu og skilgreinist hann sem fimmta stigs bylur — hæsta stigið á Saffir-Simpson skalanum sem metur styrkleika fellibylja.

Fellibylurinn Jóta nálgast nú land í Mið-Ameríku. Veðurfræðingar vara við „hugsanlegum hamfaravindi“ og að stormurinn geti ógnað lífi og limum fólks. BBC greinir frá.

Vindhraði er nú 72 metrar á sekúndu og skilgreinist hann sem fimmta stigs bylur — hæsta stigið á Saffir-Simpson skalanum sem metur styrkleika fellibylja.

Gert er ráð fyrir að fellibylurinn nái á land í norðausturhluta Níkaragva og austurhluta Hondúras í nótt, seinnipart mánudags að staðartíma. Áður en þar að kemur mun fellibylurinn fara yfir kólumbísku eyjuna Providencia í Karíbahafi. Þá hefur Jóta þegar valdið flóðum á Cartagena, vinsælum ferðamannastað á Karíbaströnd Kólumbíu.

Fellibylurinn er nefndur eftir gríska bókstafnum Jóta (e. Iota), þeim tíunda í gríska stafrófinu, en til gríska stafrófsins grípa veðurfræðingar þegar þeir hafa þegar notað alla bókstafi latneska stafrófsins það árið.

Aðeins eru tvær vikur frá því fellibylurinn Eta (nefndur eftir áttunda staf gríska stafrófsins) gekk yfir Mið-Ameríku og létu 200 manns lífið. Verst úti varð héraðið Alta Verpaz í Gvatemala, þar sem tugir aurskriður hrifu með sér tugi húsa og um hundrað manns létust. 

 

Þættir