Cher tók á móti „mest einmana fíl í heimi“

ERLENT  | 1. desember | 9:32 
Söngkonan Cher tók á móti „mest einmana fíl í heimi“ í Kambódíu í dag. Fíllinn mun hefja nýtt líf á sérhæfðum griðastað eftir að honum var bjargað úr slæmum aðstæðum í dýragarði í Pakistan.

Söngkonan Cher tók á móti „mest einmana fíl í heimi“ í Kambódíu í dag. Fíllinn mun hefja nýtt líf á sérhæfðum griðastað eftir að honum var bjargað úr slæmum aðstæðum í dýragarði í Pakistan.

Aðstæðurnar sem Kaavan, sem er 36 ára, var boðið upp á í dýragarðinum í höfuðborginni Islamabad þóttu óboðlegar og hófu dýraverndunarsamtök um víða veröld herferð til að bjarga honum.

 

Herferðin fékk byr undir báða vængi þegar Cher ákvað að ferðast fyrst til Pakistans og síðan Kambódíu til að taka á móti honum í nýjum heimkynnum hans.

„Ég er mjög stolt yfir því að vera hérna,“ sagði hún við AFP-fréttastofuna. „Hann á eftir að vera mjög hamingjusamur hér,“ bætti hún við og sagðist vona að erfiðleikar hans væru núna að baki.

 

Ferðalag fílsins til Kambódíu gekk eins og í sögu, að sögn dýralæknis hjá dýraverndunarsamtökunum Four Paws, og hegðaði Kavaan sér eins og „reyndur flugfarþegi“. Til að halda honum góðum á leiðinni voru um borð í flugvélinni 200 kíló af mat og snarli sem hann gat étið meðan á sjö klukkustunda fluginu stóð.

Sérstöku kerfi til að taka við allt að 200 lítrum af þvagi var sömuleiðis komið fyrir í búrinu hans í flugvélinni, sem var rússnesk júmbó-flutningavél.

 

„Kambódía býður Kaavan innilega velkominn. Hann verður ekki lengur „mest einmana fíll í heimi“,“ sagði aðstoðarumhverfisráðherra landsins Neth Pheaktra við komu hans til Kambódíu.

Ferðalag fílsins er afrakstur áralangrar herferðar dýraverndunarsinna, sem sögðu að hegðun hans er hann dvaldi í Pakistan hefði borið vott um „eins konar andleg veikindi“, líkast til vegna slæmra aðstæðna í dýragarðinum.

Þættir