Missti af mörgum tækifærum vegna yfirþyngdar

SMARTLAND  | 11. janúar | 16:37 
Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona gafst upp á því að standa ein í baráttu við offitu og leitaði sér hjálpar. Vaxandi þyngd hennar var farin að valda henni mikilli vanlíðan og hún játar að hún hafi ekki fengið hlutverk í söngleikjum vegna þyngdar sinnar.

Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona gafst upp á því að standa ein í baráttu við offitu og leitaði sér hjálpar. Vaxandi þyngd hennar var farin að valda henni mikilli vanlíðan og hún játar að hún hafi ekki fengið hlutverk í söngleikjum vegna þyngdar sinnar. Hún hafði röddina en búningarnir pössuðu ekki á hana. Í heimildamyndinni Þung skref eftir Ingu Lind Karlsdóttur er fylgst með bataferli og upprisu Heru Bjarkar. Inga Lind fylgdi henni eftir í þrjú ár eða frá því að Hera Björk fór í aðgerð sem kallast magaermi og er myndin framleidd af Skot. 

Í myndinni kristallast samspil líkamans og hugans þar sem það reynir harkalega á andlegu hliðina að fara í gegnum slíkar breytingar á líkamanum. Hera Björk opnar sig upp á gátt og hleypir fólki inn í sitt innsta sálarlíf þar sem mikil barátta fer fram, nýr veruleiki blasir við en líka ótti við hina nýju Heru Björk sem lítur smátt og smátt dagsins ljós.

Það þyrmdi yfir hana þegar hún hugsaði um þá staðreynd að ef hún næði ekki tökum á líkama sínum eins fljótt og mögulegt væri myndi offita draga hana til dauða. Það var ekki þannig sem hún hafði séð fyrir sér að þetta myndi enda. 

Í meðfylgjandi myndbroti, sem tekið er árið 2017, greinir Hera Björk frá ótta sínum við nýju útgáfuna af sjálfri sér, nýju Heru, sem líta muni dagsins ljós ef aðgerðin heppnast vel. Eins og kemur fram í myndinni var yfir ýmsa þröskulda að stíga mánuðina og árin eftir aðgerðina sjálfa. Þar upplifði hún að staða hennar í samfélaginu breyttist, álit fólks sömuleiðis en erfiðast fannst henni að mæta sjálfri sér.  

Myndin kemur inn á Premium Sjónvarps Símans á fimmtudag.    

Þættir