„Fer hálfur inn í gegnum rúðuna okkar“

INNLENT  | 13. janúar | 21:52 
„Það er maður sem fer hálfur inn í gegnum rúðuna okkar,“ segir Hákon Atli Bjarkason, framkvæmdastjóri Pizzunnar, spurður út í hópslagsmál fyrir utan Hólagarð í Breiðholti á fimmta tímanum í dag þar sem veitingastaðurinn er með eitt útibú.

„Það er maður sem fer hálfur inn í gegnum rúðuna okkar,“ segir Hákon Atli Bjarkason, framkvæmdastjóri Pizzunnar, spurður út í hópslagsmál fyrir utan Hólagarð í Breiðholti á fimmta tímanum í dag þar sem veitingastaðurinn er með eitt útibú.

Sjá má hluta slagsmálanna í meðfylgjandi myndskeiði.

Þeir sem slógust voru farnir af staðnum þegar lögreglan kom á vettvang og enginn hefur verið handtekinn, að sögn Þóru Jónasdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem segir málið í rannsókn. Fram kom í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrr í kvöld að einn hafi hlotið minni háttar áverka.

 

Allir skelkaðir

Hvorki Þóra né Hákon höfðu upplýsingar um tildrög slagsmálanna en Hákon segir að þau hafi haldið áfram í töluverðan tíma eftir að rúðan brotnaði. Aðspurður segir hann að enginn hafi verið í hættu inni á staðnum.

„Þeir komu aldrei inn og voru ekkert nálægt því en það voru glerbrot úti um allt. Sem betur fer var enginn við gluggann þegar þetta gerðist,“ segir Hákon og játar að hræðsla hafi gripið um sig á veitingastaðnum.

„Það voru allir skelkaðir. Það er ekki oft sem við lendum í svona löguðu eða að það hafi áhrif á okkar rekstur.“

slagsmál

 

Þættir