Fleiri látnir finnast í rústunum

ERLENT  | 15. janúar | 13:30 
Björgunarfólk hefur unnið hörðum höndum undanfarna klukkutíma við leit að fólki í rústum bygginga á Sulawesi-eyju í Indónesíu eftir jarðskjálftann sem reið yfir í nótt. Búið er að staðfesta 42 dauðsföll en mikill ótti greip um sig á svæðinu enda er mikil hætta af flóðbylgjum í kjölfar jarðskjálfta.

Björgunarfólk hefur unnið hörðum höndum undanfarna klukkutíma við leit að fólki í rústum bygginga á Sulawesi-eyju í Indónesíu eftir jarðskjálftann sem reið yfir í nótt. Búið er að staðfesta 42 dauðsföll en mikill ótti greip um sig á svæðinu enda er mikil hætta af flóðbylgjum í kjölfar jarðskjálfta. 

Öngþveiti myndaðist þegar fólk freistaði þess að komast frá ströndinni og hærra upp á land. Borgin Mamuju varð verst úti þar sem sjúkrahús, hótel og fjölmargar byggingar til viðbótar hrundu til grunna. Þar eru íbúar 110.000 talsins en vegakerfi á svæðinu eru illa farin eftir rigningar og aurskriður að undanförnu auk skjálftans sem var 6.2 stig á Richter-skalanum.

 

Joko Widodo, forseti landsins, hefur beðið fólk um að sýna stillingu og að fylgja fyrirmælum en Indónesar hafa orðið illa fyrir barðinu á jarðskjálftum og flóðbylgjum. Árið 2004 létust fleiri en 200.000 í einum mannskæðustu hamförum seinni tíma þegar flóðbylgja gekk á land í kjölfar jarðskjálfta. 

AFP hefur eftir fólki á svæðinu að ofsahræðsla hafi gripið um sig enda er bæði hætta á flóðbylgju og eftirskjálftum. Í myndskeiðinu að ofan má sjá öngþveitið sem myndaðist þegar fólk flúði borgina.

 

Frétt mbl.is

 

 

Þættir