Refsað með armbeygjum fyrir grímuleysi

ERLENT  | 20. janúar | 14:37 
Útlendingar sem eru gripnir glóðvolgir án grímu á indónesísku eyjunni Bali eru skikkaðir í að taka armbeygjur fyrir brotið á sóttvarnareglum.

Útlendingar sem eru gripnir glóðvolgir án grímu á indónesísku eyjunni Bali eru skikkaðir í að taka armbeygjur fyrir brotið á sóttvarnareglum.

Myndskeið á samfélagsmiðlum sýna ferðamenn á stuttbuxum og stuttermabolum gera armbeygjur í hitasvækjunni og lögreglumenn, með grímu, standa hjá og fylgjast með æfingunum.

Yfirvöld á Balí gerðu grímunotkun skyldu í fyrra á sama tíma og nýjum Covid-19-tilfellum fjölgaði á eyjunni. 

 

Undanfarna daga hafa ferðamenn ítrekað verið stöðvaðir án grímu að sögn yfirmanns í lögreglunni, Agung Ketut Suryanegara.

Yfir 70 einstaklingar hafa greitt sektina, 1.000 krónur, en þeim sem ekki eru með pening á sér, um 30 einstaklingum, hefur verið refsað með armbeygjum. Þeir sem eru ekki með grímu þurfa að gera 50 armbeygjur og þeim sem eru ekki með þær nægjanlega vel fyrir vitum sér er gert að taka 15 armbeygjur.

Suryanegara segir að sumir reyni að afsaka sig með því að segjast ekki þekkja reglurnar, síðan að þeir hafi gleymt þessu eða að gríman væri blaut eða skemmd. Eitthvað er um að Indónesar hafi þurft að taka armbeygjur ef þeir hafa verið gripnir án grímu á Balí. Yfirvöld hóta því að ef útlendingar brjóti reglurnar eigi þeir á hættu að vera reknir úr landi. 

Þættir