Vélrænn félagsskapur í faraldri

ERLENT  | 26. febrúar | 10:53 
Vélmenni eru líklega stærri hluti af menningunni í Japan en gengur og gerist í öðrum löndum. Þetta endurspeglast í sölu á vélmennum sem eru hönnuð til að halda fólki félagsskap á meðan veirufaraldurinn hefur einangrað það. Vélmenni sem syngja og spjalla við eigendur sína seljast nú vel í Japan.

Vélmenni eru líklega stærri hluti af menningunni í Japan en gengur og gerist í öðrum löndum. Þetta endurspeglast í sölu á vélmennum sem eru hönnuð til að halda fólki félagsskap á meðan veirufaraldurinn hefur einangrað það. Vélmenni sem syngja og spjalla við eigendur sína seljast nú vel í Japan.

Í myndskeiði AFP fréttaveitunnar sem fylgir fréttinni er rætt við Nami Hamaura sem er nýlega komin á vinnumarkaðinn. Hún er einn þeirra Japana sem hafa fengið sér vélmenni til að halda sér félagsskap á þessum síðustu og verstu tímum þar sem einvera er daglegt brauð. 

 

Heimilsþjónustur tæknifyrirtækja, á borð við Alexu frá Google og Siri frá Apple, hafa verið í sókn frá upphafi faraldursins. En japanskir tækjaframleiðendur greina líka frá aukinni spurn eftir tækjum á borð við vélmennið Charlie sem hin 23 ára gamla Hamaura festi sér kaup á.

„Ég fann að sífellt varð minna um félagsskap,“ segir Hamaura og því tók hún Charlie að sér sem hefur samskipti við eiganda sinn meðal annars í gegnum söng. Charlie kemur úr smiðju tæknirisans Yamaha sem lýsir honum þannig að hann „spjallar meira en gæludýr en þarfnast minni vinnu en elskhugi“. Hamaura er einn af tilraunaeigendum vélmenna úr smiðju Yamaha sem eru væntanleg á markað innan skamms.

 

Allir hlutir hafa sál

Sharp er annar framleiðandi á markaðnum. Fyrirtækið framleiðir mennska vélmennið Robohon sem seldist í 30% meira magni síðasta sumar en árið á undan. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er það ekki einungis fólk í yngri kantinum eða barnafjölskyldur sem bæta Robohon við heimilishaldið. Fólk á sjötugs- og áttræðisaldri hefur líka tekið þessari tækni opnum örmum að sögn talsmanna fyrirtækisins. 

Robohon fæst í ýmsum útgáfum á verðbilinu frá 110 þúsund krónum og upp í tæpar 300 hundruð þúsund krónur. „Margir Japanir trúa því að allir hlutir hafi sál,“ segir Shunsuke Aoki, forstjóri vélmennaframleiðandans Yukai Engineering, og bætir við að. „Því vilji þeir að vélmennin hafi persónuleika líkt og vænta mætti frá vini, fjölskyldu eða gæludýri. Ekki sé nóg að búa einungis yfir vélrænum eiginleikum sem búast mætti við frá tækjum á borð við uppþvottavélar.“

 

Rannsóknir hafa sýnt fram á að loðin vélmenni geti haft góð áhrif á sjúklinga með heilabilanir. Því eru fyrirtæki farin að þróa vélmenni sem örva skilningarvit eigenda sinna með flóknari hætti en áður hefur verið í boði. Sum ranghvolfa augunum á meðan önnur sýna gleðiviðbrögð við snertingu og gefa frá sér hita.

 

Þættir