Heyrðu að fólk væri að hamstra gjaldeyri

VIÐSKIPTI  | 25. mars | 10:30 
Seðlabankinn taldi mikilvægt að stíga fast og ákveðið til jarðar við upphaf veirufaraldursins. Stofnunin hafði m.a. spurnir af því að fólk væri farið að hamstra gjaldeyri í útibúum bankanna.

„Það er mjög erfitt fyrir lítið hagkerfi sem er opið að verða fyrir svona miklu áfalli í útflutningi þannig að ég hafði miklar áhyggjur af trúðverðugleikabresti. Ég var farinn að hafa fréttir af því t.d. úr útibúum bankanna að fólk væri farið að hamstra gjaldeyri. Þannig taldi ég mikilvægt að við myndum stíga fast og ákveðið til jarðar í þessum efnum.“

Þetta segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri í viðtali í Dagmálum. Þar ræðir hann um stöðu hagkerfisins í skugga kórónuveirufaraldursins.

Á sama tíma og bankinn hafi viljað tryggja trúverðugleika peningastefnunnar hafi verið mikilvægt að leyfa gengi krónunnar að veikjast. Það sé mikilvægt fyrir opið hagkerfi þegar mikið högg kemur á útflutningsgreinar þess.

Bendir Ásgeir á að bankinn hafi ekki tekið að grípa inn í með gjaldeyrisinngripum fyrr en veiking krónunnar var farin að nema 10%.

Aðspurður segir hann að krónan hafi staðist prófraunina þrátt fyrir það hvernig hún hefur sveiflast. Tekist hafi að taka vexti niður fyrir 1% líkt og í öðrum nágrannaríkjum okkar án þess að allt færi úr böndum. Hins vegar verði að taka tillit til þess að hagkerfið íslenska sé annars konar en það sem við lýði er víðast hvar í Evrópu. Þjóðin sé yngri og hér hafi hagvöxtur verið viðvarandi.

„0% vextir eru veikleikamerki á hagkerfi.“

Ásgeir áréttar að Seðlabankinn hafi þó gripið inn í á gjaldeyrismarkaði og það hressilega á síðustu mánuðum. Það hafi verið unnt að gera vegna þess hversu stór og myndarlegur gjaldeyrisvaraforði bankans sé.

„Ekki það að við höfum tapað eitthvað á þessum inngripum. Þetta er gjaldeyrir sem Seðlbankinn keypti á árunum 2014, 2016, 2017 á miklu hærra gengi en við seldum hann á þannig að við erum að bóka hagnað af því.“

Ásgeir Jónsson er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þátt­ur­inn er op­inn öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

 

Þættir