Valdbeiting ekki í samræmi við starfsreglur

ERLENT  | 6. apríl | 13:06 
Lögreglustjóri í Minneapolis í Bandaríkjunum segir fyrrverandi lögreglumanninn Derek Chauvin hafa brotið gegn starfsreglum um valdbeitingu við handtöku George Floyds í fyrra. Réttarhöld yfir Chauvin, sem ákærður er fyrir manndráp, héldu áfram í gær.

Lögreglustjóri í Minneapolis í Bandaríkjunum segir fyrrverandi lögreglumanninn Derek Chauvin hafa brotið gegn starfsreglum um valdbeitingu við handtöku George Floyds í fyrra. Réttarhöld yfir Chauvin, sem ákærður er fyrir manndráp, héldu áfram í gær.

Heimsathygli vakti þegar Floyd lést í maí í fyrra eftir að lögreglumaðurinn kraup á hálsi hans í um níu mínútur. Lögreglumenn í Bandaríkjunum eru sjaldnast dæmdir fyrir mannslát sem verða við störf þeirra og er niðurstöðu dómsins því beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Saksóknarar hafa lagt áherslu á að sýna fram á að Chauvin hafi ekki hegðað sér í samræmi við þá þjálfun sem hann fékk til starfsins. Beindu þeir því til lögreglustjórans spurningum um starfsreglur og vinnubrögð lögreglu sem og þær aðferðir sem kenndar væru til að reyna að draga úr spennu við handtöku.

Lögreglustjórinn, Medaria Arrando, sagði við réttarhöldin að ekki hefði átt að beita þeim þvingunum sem gert var við handtökuna og allra síst eftir að hann var sýnilega kvalinn. „Það er á engan hátt liður í stefnu okkar, við kennum þetta ekki og þetta samræmist ekki okkar gildum,“ sagði lögreglustjórinn.

Vitnisburður Arrando þykir merkilegur fyrir þær sakir að lögreglustjórar vitna sjaldnast gegn undirmönnum sínum.

Þættir