Dýrari borgarlína skilar meiri árangri

VIÐSKIPTI  | 8. apríl | 17:11 
Ekki gengur að standa í bútasaumi við uppbyggingu samgönguinnviða ef takast á að auka hlutdeild almenningssamgangna. Þetta er mat Davíðs Þorlákssonar, framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf., segir ekki hættu á því að 120 milljarða fjárfesting í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu næstu 13 árin muni ekki skila tilætluðum árangri. Mikilvægt sé að bjóða fólki upp á raunverulegan valkost við hlið einkabílsins og að með aukinni tíðni og styttri ferðatíma til og frá borgarlínu muni fólk sjá kosti þess að nýta sér hana.

Hann bendir auk þess á að sá misskilningur sé oft uppi að fjárfestingin fram undan miði öll að uppbyggingu borgarlínu. Staðreyndin sé sú að innan við helmingur fjárhæðarinnar fari með beinum hætti til þess hluta verkefnisins. Einnig eigi að fjárfesta í innviðum til að liðka fyrir annarri umferð.

Innspýting skilaði engum árangri

Spurður út í hvort ekki sé hætt við að eins muni fara fyrir þessum áformum og þeim sem fólust í að fresta uppbyggingu umferðarmannvirkja á síðustu árum og setja þess í stað milljarð á ári aukalega inn í starfsemi Strætó bs. segir hann að ekki sé hætta á því. Eins og áður hefur verið greint frá miðaði innspýting í starfsemi Strætó að því að auka hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu úr 4% í 8%. Það hlutfall hefur hins vegar haldist nær óbreytt á tímabilinu.

Segir Davíð að stíga þurfi stór skref í uppbyggingunni fram undan til þess að ná árangri. Ekki dugi að fara í eins konar bútasaum eða lagfæringar á núverandi kerfi. Byggja þurfi nýtt. Hugmyndir sem viðraðar hafa verið um „léttútgáfu“ af borgarlínu feli einmitt í sér bútasaum eða nýja útfærslu á aðgerðum sem ráðist hafi verið í á síðustu árum án teljandi árangurs. Visar hann þar m.a. til forgangsakreina Strætó á helstu stofnæðum.

Nauðsynlegt sé að fara alla leið í uppbyggingunni. Þá verði almenningssamgöngur raunverulegur kostur við hlið einkabílsins.

Davíð er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þættir Dagmála eru op­nir öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

Þættir