Svipað og Surtsey – gosið í beinni

INNLENT  | 13. apríl | 7:23 
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Geldingadölum í nótt að sögn Bjarka Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, en þoka er yfir gosstöðvunum nú á sjöunda tímanum. Hraunrennslið er svipað og var í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Geldingadölum í nótt að sögn Bjarka Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, en þoka er yfir gosstöðvunum nú á sjöunda tímanum. Hraunrennslið er svipað og var í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.   

Í dag er útlit fyrir sunnan 3-8 m/s og berst þá gasmengunin til norðurs, einkum yfir Vatnsleysuströnd og gæti þar náð styrk sem er óhollur fyrir viðkvæma.

Frétt mbl.is

Líkt og fjallað var um á mbl.is í gærkvöldi benda ný gögn til þess að það hafi dregið úr hraunflæðinu að nýju. Nýjustu gögn um stærðir hrauns og hraunrennsli eru byggð á flugi í hádeginu í gær. Þá voru teknar loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hraununum í Geldingadölum, Meradölum og uppi á Fagradalsfjalli þar sem nýjustu gígarnir eru.

Niðurstöðurnar eru að heildarrennsli frá öllum gígum undanfarna fjóra sólarhringa hafi að meðalatali verið tæpir 5 m3/s. Þetta er nánast jafnt meðalrennsli frá upphafi. Svo virðist sem aukningin sem kom fram í síðustu viku, samhliða opnun nýrra gíga, hafi verið fremur skammlíf.  

„Gosið er tiltölulega afllítið. Meðalrennslið þessa fyrstu 24 daga er um þriðjungur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Þá er rennslið í Geldingadölum aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikur gossins og 5% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var að meðaltali í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.   

Ekki er hægt að segja um nú hve lengi gosið muni standa, en þróun hraunrennslis með tíma mun gefa vísbendingar þegar fram í sækir,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

 

 

Þættir