Hætt við bólumyndun á suðvesturhorninu

VIÐSKIPTI  | 28. apríl | 14:56 
Ef öll áhersla er lögð á að fjárfesta í ferðamannainnviðum í námunda við Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið er hætt við að það myndist staðbundin efnahagsbóla á svæðinu.

Vinna þarf markvisst að því að dreifa ferðamönnum betur um landið en í síðustu uppsveiflu, nú þegar hillir undir að ferðaþjónustan fari af stað á nýjan leik. Þetta er mat Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Circle Air, en fyrirtækið stendur í ströngu þessa dagana við að ferja áhugasama í útsýnisflugi yfir gosstöðvarnar á Reykjanesi.

Þorvaldur Lúðvík, sem er gestur Dagmála á mbl.is í dag, segir að með betri dreifingu ferðamanna megi koma í veg fyrir óæskileg efnahagsleg áhrif af uppganginum og einnig komast hjá neikvæðri umfjöllun um offjölgun ferðamanna.

„Ég held að við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar í næstu skrefum hvernig landkynningunni verður háttað út úr kófinu. Við sáum það [...] að dreifing ferðamanna um landið var að verða jafnari og meiri, en eðli máls samkvæmt hamlar það jafnara álagi á landið og frekari dreifingu ferðamanna að þeir hafa eingöngu einn flugvöll til að koma inn í landið á.“ Segir Þorvaldur að rannsóknir á ferðahegðun sýni að 90% fólks ferðist ekki í meira en 150 kílómetra radíus út frá komustað og því útiloki ein gátt inn í landið að hægt sé að ná fram meiri dreifingu.

Staðbundin bóla

Telur Þorvaldur að þessi staða hafi á síðustu árum valdið því að til hafi orðið „staðbundin hagvaxtarbóla“ í fjárfestingu ferðaþjónstunnar. Áhrifin af fjölgun ferðamanna komi hins vegar seinna fram eftir því sem lengra dregur frá suðvesturhorninu og fjárfestingin í innviðum á þeim svæðum sé því nokkrum árum á eftir í hagsveiflunni. Þegar komi að þeim fjárfestingum séu bankar gjarnan búnir að lána mikið í sambærilega uppbyggingu og áhættudreifing valdi því að ekki fáist lánsfé til uppbyggingarinnar á landsbyggðinni.

Þorvaldur Lúðvík segir að af þessum sökum sé mikilvægt að byggja upp millilandaflug á aðra velli en Keflavík og nefnir Akureyrarflugvöll sérstaklega í því tilliti. Markaður sé fyrir slíkri þjónustu enda vilji stór hluti þeirra ferðamanna sem ákveða að sækja landið heim öðru sinni eða oftar hefja ferðalagið á nýjum slóðum.

Slík nálgun á uppbyggingu ferðaþjónustunnar dragi einnig úr hættunni á því að fólk upplifi átroðning ferðamanna á suðvesturhorninu og Suðurlandi.

Þorvaldur Lúðvík er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þættir Dagmála eru opnir öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

Þættir