Er lífið bara búið núna?

INNLENT  | 30. apríl | 20:02 
Það var einn sólríkan júnímorgun árið 2020 að ódæðismaður réðst inn á heimili Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og stakk hana ítrekað. Hún lifði af en þarf að lifa með afleiðingum árásarinnar. Herdís býr enn í húsinu því hún segir það valdeflandi að gefa þessu skelfilega atviki ekki meira vægi.

Það er fallegt steinhúsið sem stendur við Langholtsveg, heimili Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur, viðmælandans sem blaðamaður mælti sér mót við einn blíðviðrismorgun í vikunni. Það var einmitt á rólegum og fallegum mánudagsmorgni fyrir tæpu ári að hið ótrúlega, hryllilega og óvænta gerðist innan veggja hússins. Herdís var í óða önn að klára morgunverkin, á leið út í daginn, þegar nýi leigjandinn á neðri hæðinni stóð fyrir framan hana með hníf á lofti. Augnaráðið var tryllingslegt og hnífshöggin dundu á Herdísi sem varði sig með kjafti og klóm. Það kom sér vel að hún var í óvenjugóðu formi, en á endanum var hún króuð inni eins og sært dýr og sá sér enga undankomuleið.

 

Ég ætla að drepa þig!

Segðu mér frá því sem gerðist.

„Ég var með tvær íbúðir hér á jarðhæð í langtímaleigu um veturinn og þar sem ég sá fram á að vera ekki með ferðamenn auglýsti ég eftir nýjum leigjendum, frá og með fyrsta júní. Ég auglýsti inni á leigusíðu á Facebook og talaði við nokkra aðila, meðal annars ungan mann, rúmlega þrítugan. Ég sýndi honum íbúðina og hann var einn og mér leist ágætlega á hann þannig lagað. Hann segir mér strax að hann hafi fengið æxli í höfuðið og þess vegna sé hann með ör og flogaveikur. Ég ákvað að leigja honum og við hittumst hjá sýslumanni til að skrifa undir og svo sé ég hann ekki meir því ég fór í ferðalag stuttu síðar. Fyrsti rennur upp og ég skil lyklana eftir í lyklaboxi og tala ekkert við hann meira. Ég kom svo heim úr ferðalaginu og heyri ekkert í honum; engin læti og ekkert vesen,“ segir hún.

Frétt af mbl.is

„Svo vakna ég á mánudagsmorgni fimmtánda júní og sonur minn fer óvenjusnemma þann daginn en ætlar að koma aftur að sækja körfuboltadótið sitt. Ég var inni á baði og klukkan var ekki orðin níu. Á ég ekki bara að sýna þér?“ segir Herdís og leiðir blaðamann inn þröngan gang og þaðan inn á bað. Beint á vettvang glæpsins.

„Ég er hér að setja í þvottavél og heyri bankað og svo gengið inn. Ég kíki út um gluggann á baðinu og sé að bíll nágrannans er heima og hélt að hann væri að koma í kaffi. Ég labba fram á gang og sé þá mann standa í dyrunum. Hann öskrar: „Ég veit hvað þú gerðir í gær. Ég ætla að drepa þig!“ Svo gengur hann á móti mér og ég á móti honum en kemst ekki fram hjá honum, þannig að ég bakka,“ segir Herdís og leikur fyrir blaðamann hverja hreyfingu.
„Ég var smátíma að átta mig á því hver þetta væri. Og hvað væri að gerast. Hann er hár, stór og sterkur og með hníf á lofti. Ég öskraði rosalega hátt þrisvar, og horfði framan í hann en það voru engin viðbrögð. Það var enginn í húsinu og ég áttaði mig fljótt á því að enginn myndi heyra í mér þannig að ég hætti að öskra. Ég áttaði mig á því að ég væri bara að eyða orku og þetta væri ekki að hafa letjandi áhrif á hann.“

 

 

Minnti á rándýr

Herdís segist ekki hafa haft mikið ráðrúm til að bregðast við; maðurinn var kominn inn á gang á örskotsstundu.

„Hann er með hnífinn hátt á lofti og heggur niður, í átt að höfði mér. Um leið. Og ég set höndina fyrir og gríp hnífinn,“ segir Herdís og sýnir blaðamanni örið á hendinni. Hnífurinn skar djúpan skurð á milli þumals og vísifingurs þar til hann stöðvaðist á beini.

„Höndin skarst bara í sundur, alveg inn í miðjan lófa,“ segir hún og segir ótrúlegt hvað hafi farið í gegnum hugann á þessari stundu. 

„Næst setur hann ískaldan hnífinn að hálsi mér og ég hugsa, ok, þetta er búið. Ég man ég hugsaði, „Vá hvað ég bjóst ekki við þessu! Er lífið bara búið núna?““ segir Herdís og segir hann þá hafa rykkt hnífnum til baka til að ná að höggva í hálsinn með meira afli. Þessi auka sekúnda eða svo gaf Herdísi færi á að beygja sig undan högginu.

„Af því ég var í svo góðu formi vegna jógaæfinga, þá gat ég sveigt mig frá höggunum. Ég sá mig út undan mér í speglinum á ganginum og mér fannst ég vera að hreyfa mig hægt. Mér leið eins og í Matrix-myndinni. Ég næ að bakka og er þá komin fyrir horn, inn á bað,“ segir Herdís og segir að næst hafi hún króast inni á litlu þvottahúsi sem er inn af baðinu.
„Ég hugsaði, hverju á ég að fórna næst? Ég lyfti fæti fyrir búkinn til að verja mig og þá stingur hann í lærið,“ segir Herdís sem er nú komin inn í litla þvottahúsið til að sýna blaðamanni nákvæmlega hvernig atburðarásin var. Ekki er laust við að um hann fari hrollur.

„Ég sparka honum frá eins fast og ég get og þá stingur hann mig í hnéð en ég næ að grípa þvottakörfu og ver mig með henni,“ segir hún og lyftir upp þvottakörfu úr hörðu lérefti. Það er ekki sama karfan; hún hafði farið síðar og keypt aðra nákvæmlega eins.

„Sjáöldur augna hans voru svo þanin af neyslu að hann minnti mig á rándýr. Þá man ég eftir náttúrulífsmynd, og ég heyrði bara nánast röddina í Attenborough segja frá dýrategund sem leikur sig lífvana til að minnka árásarhneigð rándýrsins. Ég átti ekki mikinn séns þegar þarna var komið sögu. Ég var orðin mikið slæpt og það var ekki margt í stöðunni,“ segir Herdís sem var þá mikið skorin og blóðug og farin að missa blóð og mátt. Ellefu stungusár voru á líkama Herdísar.

„Ég ákvað því að prófa að rugla taktinn og lét mig lyppast niður á gólf. Ég vissi ekki hvort ég myndi lifa þetta af. Ég vonaði að hann sæi ekki hjartað berjast í gegnum rifbeinin eða heyrði andardráttinn. Þá öskrar hann: „Ég sleppi þér núna!“ Og svo labbar hann út,“ segir Herdís og segist hafa óttast að hann kæmi aftur inn.

Í geðrofi og vímu

Þegar Herdís heyrir að útidyrnar lokast kemst hún við illan leik inn í eldhús þar sem síminn hennar var. Hún flýtir sér þó fyrst að skella í lás svo ódæðismaðurinn komist ekki aftur inn.
Hún nær í símann sem verður strax alblóðugur og virkar illa en tekst að hringja á 112.

„Ég sagði í símann að maðurinn á neðri hæðinni hefði reynt að drepa mig og mig vantaði sjúkrabíl. Ég held ég hafi líka nefnt að ég þyrfti handaskurðlækni. Ég hafði svo rosalegar áhyggjur af hendinni. Svo spýttist blóðið út úr fætinum í stöðugum takti og ég var komin með svima. Mér var sagt í símann að ég ætti að ná í eitthvað til að binda um fótinn til að stöðva blæðinguna en ég hafði ekki orku í það. Ég ætlaði að reyna að hringja í nágrannann en þá virkaði síminn ekkert. Ég lagðist niður við dyrnar svo ég gæti örugglega opnað þegar sjúkrabíllinn kæmi og setti svo fótlegginn upp í loft og það hægðist á blæðingunni,“ segir hún.

Yfirheyrð kvalin og ein

Strax var hafist handa við að koma Herdísi á spítala.

„Svo kemur lögreglumaður á spítalann til að taka skýrslu. Mér finnst þetta svolítið sérkennilegt, sérstaklega þegar ég fer seinna að skoða stöðu brotaþola. Þetta var mjög óþægileg staða. Ég er þarna ein, nakin undir laki og sundurskorin,“ segir hún og segir lögregluna hafa tekið af henni skýrslu þar sem hún lá þarna kvalin því enn átti eftir að sauma sárin og senda hana í aðgerð.

„Það var aldrei tekin önnur skýrsla,“ segir Herdís og segir það undarlegt að gerandi eigi rétt á að hafa hjá sér verjanda í yfirheyrslu en brotaþolinn gefur sína skýrslu aleinn. Seinna bað hún um að sakóknari hefði samband við sig eftir að gerandi breytti sínum framburði en það var ekki orðið við því.

„Það er svo skrítið að þótt maður hafi ekki gert neitt rangt, hefur maður áhyggjur af því að segja eitthvað rangt. Þótt einhver hafi reynt að drepa mig fór ég strax að hafa áhyggjur af því að ég myndi koma því vitlaust frá mér. Og þótt ég hafi verið þokkalega skýr þá var ég í bæði líkamlegu og andlegu áfalli. Ég var í sjokki, var búin að missa mikið blóð og var í grátköstum. Ég vissi ekki hvort ég kæmi til með að geta hreyft á mér hægri höndina.“

Mikilvægt að hafa stjórnina

Ákveðið var að senda Herdísi í aðgerð, en fyrir aðgerðina fékk hún vinkonu sína til að koma og vera hjá sér.

„Það var rosaleg hjálp í því, líka til að meðtaka allar upplýsingarnar. Vinkonan gúgglaði alla læknana og sannfærði mig um að handalæknirinn væri góður,“ segir hún og brosir.

„Þá leið mér betur. Svo hjálpaði mér það mest að skurðlæknirinn gaf mér endalausan tíma fyrir aðgerðina til að ræða við mig. Ég fékk engin verkjalyf né róandi lyf fyrr en ég fór í aðgerðina,“ segir hún og viðurkennir að vissulega hafi hún fundið til.

„Ég andaði mig í gegnum þetta. Hann saumaði svo saman taugar og vöðva í hendinni og annar læknir saumaði saman skurði á fæti. Svo mátti ég fara heim, þannig að ég fór bara heim. Dóttir mín baðaði svo af mér blóðið.“

Hvernig var að koma heim, á vettvang glæpsins?

„Það var valdeflandi fyrir mig að gefa þessum atburði eða þessum aðila ekki meira dagskrárvald yfir mínu lífi en nauðsynlegt var. Það var mikilvægt fyrir mig að halda stjórninni. Kannski fór ég langt í því en fólk hefur sínar leiðir,“ segir Herdís sem ákvað strax að horfast í augu við staðreyndir og halda áfram með lífið.

 

„Það hjálpaði mér svo mikið að handaskurðlæknirinn hafi sagt við mig: „Gerðu allt sem þú vilt gera; ekki láta neitt stoppa þig.“ Hann sagði að ég ætti að halda minni rútínu og mætti gera allt innan skynsamlegra marka varðandi líkamlegu áverkana. Þótt ég væri meidd var ég ekki veik og ég hafði engan áhuga á að sitja kyrr. Það hefði gert mig brjálaða. Ég þurfti að halda rútínu og byrja strax að vinna mig frá þessu.“

Fannst ég vera svikin

Datt þér aldrei í hug að flytja úr húsinu þar sem þessi skelfilegi glæpur átti sér stað?

„Nei. Þetta er ekki húsinu að kenna. Ég hef oft verið spurð að þessu og líka hvort ég geti verið ein heima. Ég er rökhyggjumanneskja og ég skapaði þetta heimili alveg sjálf og kann mjög vel við það. Ég ætla ekki að láta þetta eyðileggja ánægjuna af því að búa hérna. Það er svo mikil sál í því sem ég er að gera hér. Þetta var náttúrulega rosaleg óheppni, eða það hélt ég fyrst. Sjálf árásin er kannski ekki að trufla mig eins mikið og það sem á eftir kemur. Ég er þá að meina hvernig kerfið virkar, en það er mikil vinna sem fór í gang í kjölfarið. Ég var jákvæðari fyrst, áður en ég vissi hvað hann var hættulegur, áður en ég fattaði hvað var mikil brotalöm í kerfinu,“ segir Herdís.

„Það fóru að berast fréttir af því að hann ætti að baki langa afbrotasögu. Þá finnst mér ég vera svikin. Ég heyrði það fyrst í fréttum að hann hefði verið góðkunningi lögreglunnar,“ segir Herdís og fannst að fyrst lögreglan gat upplýst fjölmiðla um það, þá ætti almenningur að geta nálgast þær upplýsingar líka.

„Það er mjög áhugavert að eins og sjá má inni á dómstólar.is eru skýrar reglur um birtingu dóma og úrskurða en þeim er greinilega ekki fylgt eftir. Leigumiðlunin hafði flett honum upp en þar kom ekkert fram þrátt fyrir marga dóma. Í dag birtast sumir dómar sem hann hefur hlotið inni á dómaskrá; það hefur verið lagað eftir á,“ segir hún.

Af hverju gekk hann laus?

Fréttir þú seinna að lögreglan hafi verið að fylgjast með honum?

„Já, en það var ekki fyrr en í réttarsal. Það er margt sem tefur svo fyrir minni úrvinnslu á þessu áfalli því ég er alltaf að hnjóta um upplýsingar sem koma mér á óvart. Þá fer maður að hugsa, ég hefði getað dáið. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir árásina. Hér er ég borgari í þessu samfélagi þar sem helsta hlutverk ríkisins er að vernda almenna borgara.“
Eins og fyrr segir var árásarmaðurinn í geðrofi vegna vímuefnaneyslu, og það ekki í fyrsta sinn.
„Hann á sögu um að fara í geðrof eftir mikla neyslu og hann var virkur í neyslu, það var vitað á þessari stundu. Hann var búinn að sitja inni áður fyrir líkamsárásir. Tveimur mánuðum áður en hann réðst á mig, hafði hann tekið mann í gíslingu í sautján klukkutíma og barið hann með kúbeini. Lögreglan kom að honum í verknaðinum. Enginn veit hvernig það hefði annars endað.“

Af hverju var hann ekki í fangelsi fyrir það brot?

„Það er það sem truflar mig!“

„Ég veit að fólk er saklaust þar til sekt er sönnuð. En þegar fólk er orðið hættulegt samfélagi sínu, og lögreglan sjálf stendur mann að svo alvarlegum verknaði eins og að svipta mann frelsi og lemja með kúbeini, þá skilur maður ekki að seinlæti í kerfinu geri það að verkum að hann gangi laus. Það var ítrekað búið að taka hann undir stýri undir áhrifum amfetamíns og kókaíns og í hálfgerðu geðrofi. Er það ekki nóg til að stoppa hann? Og hann var á skilorði. Eru þetta ekki nógu mörg atriði til að fangelsa hann vegna almenningshagsmuna, þótt ekki hafi verið fallinn dómur? Hver ber ábyrgð á því að hann gekk laus, og ekki bara vegna okkar almennings heldur líka gerandans vegna? Það er ekkert gaman að vakna upp úr vímu og vera búinn að drepa konuna á efri hæðinni.“

Kerfið sem brást

Hann hefur ekkert beðið þig fyrirgefningar?

„Nei, nei, nei. Alls ekki. Frekar hefur hann sagt að ég væri að plata. Það er ítrekað verið að halda því fram að ég hafi ekki verið lífshættulega slösuð. Já, hverjum var það að þakka? Ég var ekki í lífshættu af því ég komst fljótt undir hendur lækna og það tókst að stöðva blæðingar. Ég veit ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki getað hringt.“

Hvernig hugsar þú til hans núna?

„Ég hugsa ekkert sérstaklega til hans; hann er bara veikur einstaklingur. Hann er ákveðið fórnarlamb aðstæðna og tekur rangar ákvarðanir í lífinu. Við erum okkar gæfu smiðir. En ég hugsa til kerfisins sem brást, og brást honum líka og líklega alveg frá æsku,“ segir Herdís.
„En fyrst ég er ekki algjörlega buguð verð ég að reyna að nýta reynsluna til að ávarpa þessi atriði og tilkynna að þarna séu frávik og það þurfi að breyta verklagi. Það sem mér finnst vanta er að spyrja hver hafi verið ábyrgur. Hver vissi, eða mátti vita, að þessi einstaklingur væri svona veikur og hættulegur? Ég sakna þess að fá viðbrögð frá kerfinu, mér þætti eðlilegra að þaðan kæmi ósk um fyrirgefningu,“ segir hún.

„Sumir hafa spurt mig af hverju ég gleymi þessu ekki bara og fari að einbeita mér að öðru. Ég held að þá yrði ég endanlega brjáluð. Ég vil laga þetta ferli og mín heilun liggur í því að byrgja þennan brunn.“

Ofurhetja með leynivopn

Hvernig horfir þú til framtíðar? Verður þú alltaf með þetta á bakinu?

„Já, ég held ég geti ekkert strokað þetta út. Ég er líkamlega minnt á þetta alla daga. En ég set einn fótinn fram fyrir hinn og held áfram. Það er miklu eðlilegra að viðurkenna það að þetta hafi áhrif heldur en að vera í afneitun. Það koma tímabil þar sem ég er mjög leið og kvíðin og finnst allt erfitt, en þetta snýst um afstöðu. Við höfum öll okkar sögu og hún mótar okkur, þótt við hefðum valið að hún væri einhvern veginn öðruvísi þá höfum við val um hvernig hún mótar okkur. Ég get ekki búið til nýja sögu; ég breyti ekki fortíðinni, en ég vel að standa uppi sem sigurvegari,“ segir Herdís.

„Ég get litið á þessa lífsreynslu sem valdeflandi, að hafa staðið árásina af mér og komist út úr aðstæðum með útsjónarsemi og áræðni. Þá veit ég úr hverju ég er gerð. Það sé þarna tækifæri til að vera sterk fyrirmynd. Ég upplifði til dæmis um daginn að vera allt í einu orðin hetja í augum stórs stúlknahóps hér úr hverfinu. Þær hafa mikinn áhuga á að fylgjast með mér í framkvæmdum mínum við húsið, og hafa tamið sér að kíkja við í ævintýrahöllina eins og þær kalla húsið mitt. Þær sungu fyrir mig á öskudag og spurðu svo í framhaldi hvernig ég hefði eiginlega sloppið frá vonda kallinum. „Lamdirðu hann ekki með Gucci-töskunni þinni Dísa?“ skaut þá ein þeirra inn,“ segir hún og brosir.

 

„Það er frábær tilfinning að vera allt í einu orðin ofurhetja með leynivopn, þótt ég eigi ekki Gucci-tösku. Í þeirra augum eru mér engin takmörk sett og vonandi þeim þá ekki heldur.“

Herdís segist horfa jákvæð til framtíðar og langar aftur í prófkjör en Herdís er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður.

„Mig langar að láta gott af mér leiða.“

Þú ert greinilega baráttukona.

„Ég veit það nú ekki, en það er seigla í mér og ég þarf alltaf að vera að skapa eitthvað eða laga,“ segir hún og hugsar sig um stutta stund.

„Jú, ætli ég sé ekki baráttukona!“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

 

Þættir