Langar biðraðir eftir bólusetningu

ERLENT  | 3. maí | 8:05 
Ekkert lát er á fjölgun dauðsfalla á Indlandi af völdum kórónuveirunnar. Í gær létust þar 3.689 úr Covid-19 og tæplega 400 þúsund ný smit voru staðfest.

Ekkert lát er á fjölgun dauðsfalla á Indlandi af völdum kórónuveirunnar. Í gær létust þar 3.689 úr Covid-19 og tæplega 400 þúsund ný smit voru staðfest. Vitað er að fjöldinn er margfalt meiri þar sem lítið er til af skimunarpinnum og langar biðraðir eftir skimun víða.

Alþjóðleg aðstoð heldur áfram að berast til Indlands þar sem súrefnisskortur er ein helsta ógn þeirra sem veikjast alvarlega af veirunni hættulegu.

Mikil fjölgun nýrra smita í Brasilíu og Kanada vekur einnig ugg og þykir sýna hversu viðvarandi ógnin er. Alls eru tæplega 3,2 milljónir látnar af völdum Covid-19 í heiminum.

Um helgina var ákveðið að bjóða öllum fullorðnum upp á bólusetningu á Indlandi en það reynist þar mörgum landshlutum erfiður ljár í þúfu þar sem skortur er á bóluefni þrátt fyrir að búið sé að setja bann við útflutningi á bóluefni frá landinu. 

Langar raðir voru við bólusetningarstaði í indverskum borgum um helgina enda fólk í örvæntingu að finna leið til þess að forðast smit á sama tíma og heilbrigðiskerfið er í molum og líkbrennslur og kirkjugarðar yfirfyllast. 

Sendiherra Þýskalands á Indlandi segir að ekkert súrefni sé í boði. Fólk deyi fyrir utan sjúkrahúsin og jafnvel í bílum sínum. Þjóðverjar sendu 120 öndunarvélar til Indlands á laugardag. 

Á samfélagsmiðlum berast stöðugt hjálparbeiðnir, fólk sem er að reyna að verða sér úti um súrefniskúta, lyf og sjúkrarúm fyrir nána ættingja. Meðal ríkja sem hafa sent súrefniskúta, andlitsgrímur og bóluefni til Indlands eru Bandaríkin, Rússland og Bretland. 

Hópur breskra lækna hefur einnig tekið höndum saman og býður upp á fjarlæknaþjónustu til Indverja þar sem starfssystkini þeirra á Indlandi eru komin að niðurlotum. Með þessu geta læknar á Indlandi einbeitt sér að Covid-sjúklingum en aðrir geta fengið aðstoð í gegnum netið frá Bretlandi. Bretar eru jafnframt að senda mikið magn af súrefniskútum og öndunarvélum til viðbótar til Indlands á næstu dögum. 

Búið er að skella öllu í lás í Nýju-Delí en Anthony Fauci, helsti ráðgjafi bandarískra yfirvalda varðandi Covid-19, segir að nauðsynlegt sé að skella öllu í lás um allt Indland í baráttunni við Covid-19. Ríkisstjórn Indlands hefur þrjóskast við en mörg ríki hafa sett harðar sóttvarnareglur. 

 

Þættir