Eldtungan reis fyrir aftan þau

INNLENT  | 2. maí | 11:05 
Sólný Pálsdóttir var við gosið í Geildingadölum í nótt þegar háir hraunstrókar spýttust upp úr virka gígnum til skiptis við enga stróka. Sólný tók meðfylgjandi myndskeið af þessu magnaða sjónarspili en hún hefur farið sex sinnum upp að gosinu og segir hverja ferð ævintýri. Þegar gígurinn varð rólegur á milli gosstróka fann Sólný til tómleikatilfinningar, ef gosinu skyldi vera lokið.

Sólný Pálsdóttir var við gosið í Geildingadölum í nótt þegar háir hraunstrókar spýttust upp úr virka gígnum til skiptis við enga stróka. Sólný tók meðfylgjandi myndskeið af þessu magnaða sjónarspili en hún hefur farið sex sinnum upp að gosinu og segir hverja ferð ævintýri. Þegar gígurinn varð rólegur á milli gosstróka fann Sólný til tómleikatilfinningar, ef gosinu skyldi vera lokið.

Frétt af mbl.is

Sólný býr í Grindavík og er einkar lánsöm með náttúruna þar í kring um þessar mundir.

„Ég er með útsýni yfir gosið, ég hlusta bara á lóuna og spóann og fer í heita pottinn og horfi á gosið. Þetta er svo fáránlegt. Það er eins og maður sé í einhverju undralandi. Þetta er bara garðskrautið mitt,“ segir Sólný í samtali við mbl.is.

Frétt af mbl.is

 

„Ég fékk smá tómleikatilfinningu, ef þetta skyldi vera búið“

Sólný tók myndskeiðið rétt fyrir miðnætti í nótt þegar þau hjónin voru að búa sig undir það að ganga aftur heim frá gosinu. Umræða hafði verið um það í Grindavík að eldtungurnar, ekki bara mökkur eins og vant er, sæjust frá golfvellinum í bænum en eiginmaður Sólnýjar hafði ekki gefið mikið fyrir þær sögur.  

„Svo er hann varla búinn að sleppa orðinu og þá bara rís þessi eldtunga fyrir aftan okkur. Það var eins og ég væri í bíómynd. Það kom bara svona bjarmi aftan við mig,“ segir Sólný. Þau rifu þá bæði upp símana en gígurinn virtist eitthvað feiminn.  

„Svo bara datt allt í dúnalogn. Þá fékk maður aðeins á tilfinninguna að gosið væri bara að hætta. Ég reif upp símann og þá gerðist þetta aftur eins og myndbandið sýnir.“

Eins og áður segir er Sólný með gott útsýni yfir gosið og fylgdist hún með því í nótt og sá þá að sama atburðarás og þau hjónin höfðu orðið vitni að hélt áfram inn í nóttina. Sólný segir að gosið hafi verið sérstaklega skrýtið á milli fjögur og hálffimm í morgun.

„Ég fékk smá tómleikatilfinningu, ef þetta skyldi vera búið,“ segir Sólný.

Þættir