Milljónir ferðast innanlands

FERÐALÖG  | 4. maí | 15:10 
Milljónir kínverskra ferðamanna ferðuðust innanlands um liðna helgi. Baráttan við veiruna hefur gengið vel í Kína og eru íbúar fegnir frelsinu.

Milljónir kínverskra ferðamanna ferðuðust innanlands um liðna helgi. Baráttan við veiruna hefur gengið vel í Kína og eru íbúar fegnir frelsinu. 

Götur höfuðborgarinnar Beijing fylltust af ferðamönnum með myndavélar. Í Shanghai mátti sjá fjölda ferðamanna draga ferðatöskur á hjólum og taka sjálfur af sér. Í Wuhan, þar sem veiran greindist fyrst, mátti sjá fólk dansa án andlitsgrímu úti á götu á Strawberry-tónlistarhátíðinni.

Vel hefur gengið að hafa stjórn á faraldrinum í Kína undanfarna mánuði og greindust aðeins 17 smit í gær, þriðjudag, og voru það allt landamærasmit og því öll í sóttkví. 

Takmarkanir á ferðalögum til annarra landa eru þó enn í gildi og landamærin hálflokuð. Kínverjar nýta þó tækifærið til að ferðast innanlands. Samkvæmt bókunarvefnum Ctrip var búist við því að um 200 milljónir myndu ferðast innanlands á fimm dögum. 

Kínversk stjórnvöld fara þó að öllu með gát og hvetja vinsæla ferðamannastaði til að setja fjöldatakmarkanir og halda skrá yfir þá sem heimsækja staðinn. 

Þættir