Gos hafið að nýju úr fyrsta gígnum

INNLENT  | 8. maí | 12:20 
Talsverðar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum á Reykjanesi í morgun og virðist sem gos sé hafið að nýju úr fyrsta gígnum segir Salóme Jór­unn Bern­h­arðsdótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands.

Talsverðar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum á Reykjanesi í morgun og virðist sem gos sé hafið að nýju úr fyrsta gígnum segir Salóme Jór­unn Bern­h­arðsdótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands.

Salóme segir að þetta sé frekar lítill taumur en óyggjandi að það rennur hraun úr honum og glóð sjáanleg. Þannig að það er greinileg virkni í fyrsta gígnum.

Breyting hefur einnig orðið á gígnum sem hefur gosið í Geldingadölum undanfarið. Að sögn Salóme virðist breytingin hafa átt sér stað um klukkan 9:20 þegar strókavirknin hætti og breyting varð á púlsóróanum en hann er nú samfelldur. Rétt eftir níu í morgun kom mjög hár og stór strókur upp úr gígnum og eins og eftir það hafi virknin breyst í þessum gíg. Salóme segist ekki vita hversu hár strókurinn var en hann hafi verið mjög hár. 

Á sunnudag varð breyting á yfirborðsvirkni eldgossins. Stöðug kvikustrókavirkni hætti og lotubundin kvikustrókavirkni tók við, en talað er um kvikustrók þegar sprenging verður þegar gas sleppur úr kvikunni. 

Slík kvikustrókavirkni getur þeytt kviku nokkur hundruð metra upp fyrir gíg. Sú kvika verður að ösku og kleprum sem geta fallið til jarðar nokkur hundruð metrum frá gígnum. Vegna þess var hættusvæði í kringum gosstöðvarnar stækkað. 

Mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sýna að hraunflæði er enn nokkuð stöðugt og framrás hrauns heldur áfram.

Mikið hrun í gígnum

Á facebooksíðu Náttúruvár- og eldfjallahóps Suðurlands kemur fram að svo virðist sem tvö op skvetti hrauni þessa stundina  eitt í hrauntjörninni í botni gígsins, en annað uppi í norðanverðri gígskálinni.

„Þessi aðskildi strókur birtist fyrst kl. 9.20 í morgun eftir að mikið hrun varð í gígnum kl. 8.46, þegar hæsti gígbarmurinn skreið niður í hrauntjörnina. Ólíklegt er því að um eiginlegt nýtt gosop sé að ræða, heldur skvettist þarna upp sitthvorumegin við efnið sem féll ofan í gígskálina.

Breyting á goshegðuninni virðist hafa fylgt þessu hruni þar sem ekki er hægt að sjá að stórir strókar hafi risið langt upp fyrir gígbarminn síðan hrunið varð. Í stað þess virðist gígurinn aftur vera að sleppa gasi í sífellu með stöðugri en kraftminni strókavirkni,“ segir á facebooksíðu hópsins.

Þættir