Óli Björn vill lækka skatta

INNLENT  | 28. maí | 13:52 
Óli Björn Kárason segir að það sé forgangsmál að lækka skatta og ná betur utan um ríkisrekstur, þar sem víða viðgangist sóun. Það þurfi að „skrúfa frá súrefninu“ til atvinnulífs og fjölskyldnanna í landinu.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, segir að það sé forgangsmál að lækka skatta og ná betur utan um ríkisrekstur, þar sem víða viðgangist sóun. Það sé ákaflega brýnt eins og sakir standa, að „skrúfa frá súrefninu“ til atvinnulífs og fjölskyldnanna í landinu til þess að þjóðin nái sér upp úr kórónukreppunni.

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í viðtali við Óla Björn í Dagmálum í dag, en þar ræðir hann meðal annars um fjölmiðlaumhverfið, ríkisstjórnarsamstarfið og horfur í stjórnmálum. Ekki síður rekur hann þó lífsviðhorf sín, sem mótað hafa hans pólitísku skoðanir, en þau kveðst hann hafa meðtekið barn að aldri í bakaríinu heima á Sauðárkróki.

Dagmál eru streymisþættir Morgunblaðsins á netinu, opnir öllum áskrifendum blaðsins. Viðtalið við Óla Björn má finna hér.

 

Það vitlausasta

„Það vitlausasta, sem við gætum gert við núverandi aðstæður, er að leggja auknar álögur á fyrirtæki og launafólk, vegna þess að þær drepa niður, þær hægja á öllu,“ segir Óli Björn þegar hann er spurður út í skattamálin.

Hann játar þó að ná þurfi betur utan um opinberan rekstur. „Við verðum að viðurkenna það, við þurfum að horfast í augu við það, sérstaklega við sjálfstæðismenn, að það á sér stað veruleg sóun á flestum sviðum þegar kemur að rekstri ríkisins,“ segir Óli Björn og segir skattgreiðendur ekki alltaf vera að fá peninganna virði.

„Þetta er verkefnið. Ekki það að halda áfram og dæla meiru inn í ríkissreksturinn, heldur að fara betur með, byggja undir atvinnulífið, létta undir með fólki með því að auka súrefnisgjöfina og lækka skatta, þetta er svo einfalt. Ég lærði það í bakaríinu!“

Þættir