„Tók út 15 milljónir í posum í sjoppum“

INNLENT  | 3. júní | 15:56 
Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segir að þingmenn og stjórnvöld, verði að hætta að tala um skilning á vanda spilafíkla og fara að sýna í verki að tekið verði á málinu.

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segir að þingmenn og stjórnvöld, verði að hætta að tala um skilning á vanda spilafíkla og fara að sýna í verki að tekið verði á málinu. „Hver dagur, hver mánaðamót valda miklu tjóni meðal spilafíkla og fjölskyldna þeirra,“ segir Alma í nýjum þætti Dagmála.

Hún fékk í hendur bankayfirlit frá manni sem hafði tekið út 15 milljónir á 18 mánuðum í posum í sjoppum. Enginn steig inn í ferlið og gerði athugasemdir. „Það er öllum fullljóst sem koma að þessu að þetta er fullkomin geðveiki. Það er ekkert heilbrigt við þetta,“ segir Alma í myndbrotinu sem fylgir fréttinni.

Komið er fram á Alþingi frumvarp, frá tveimur þingmönnum Flokks fólksins, þeim Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni, þar sem lagt er til að spilakassar verði bannaðir. Nýverið skilaði Landlæknisembættið inn umsögn um frumvarpið og kemur fram í því áliti að embættið styður frumvarpið og vísar meðal annars til þess að Norðmenn hafi bannað spilakassa árið 2007.

Alma segir að spilakassar séu í algerum sérflokki þegar kemur að ágengum fjárhættuspilum. Hún nefnir sem dæmi að spilafíkill geti tapað 360 þúsund krónum á klukkutíma í spilakössum. Þá eru mánaðarlaunin ekki lengi að fjúka.

Henni finnst nöturlegt að horfa upp á virðuleg samtök og stofnanir níðast á fólki með spilafíkn og nefnir þar til sögunnar, Rauða krossinn, Landsbjörgu og Háskóla Íslands. Hún líkir stöðunni við Metoo byltinguna seinni. Þar sem þessi samtök og stofnun eru ígildi „góðu strákanna.“ 

Alma Hafsteinsdóttir er gestur Eggerts Skúlasonar í nýjasta þætti Dagmála sem eru aðgengilegri áskrifendum Morgunblaðsins og mbl.is

Þættir