ABBA-goðsögn sendi óvænta kveðju til Íslands

FÓLKIÐ  | 4. júní | 13:06 
Kvennakórinn Ymur frá Akranesi fékk óvænta kveðju frá Benny Andersson úr sænsku hljómsveitinni ABBA fyrir vortónleika sem voru haldnir á dögunum.

Kvennakórinn Ymur frá Akranesi fékk óvænta kveðju frá Benny Andersson úr sænsku hljómsveitinni ABBA fyrir vortónleika sem voru haldnir á dögunum.

Ymur söng ABBA-lagið Chiquitita á tónleikunum og áður en þeir hófust sendi Andersson kveðju á facebooksíðu kórsins þar sem hann óskaði dömunum góðs gengis.  

 

 

 

Tengsl Anderssons við kórinn eru þau að dóttir konu úr kórnum hefur starfað með ABBA-goðsögninni að undanförnu. Þegar hún frétti að kórinn ætlaði að syngja ABBA-lagið á vortónleikunum sagði hún Andersson frá því og bað hann í framhaldinu kærlega að heilsa kórnum.

„Fór alveg með þær“

Sigríður Elliðadóttir, kórstjóri Yms, segir að þeim hafi þótt mjög gaman þegar hann bað að heilsa. Það hafi gefið þeim aukinn kraft til flytja þetta vinsæla lag hans enn betur. Sama dag og tónleikarnir voru haldnir bætti hann síðan um betur og sendi fyrrnefnda kveðju á Facebook. 

„Þegar kveðjan kom þá fór það alveg með þær, því það átti að taka þetta upp og senda honum þetta,“ segir Sigríður. 

 

Andersson sagðist í framhaldinu hafa hlustað á sönginn ásamt syni sínum og líkað vel.

„Ég held að þetta hafi heppnast vel miðað við stöðuna á kórnum,“ segir Sigríður um flutninginn en um helming kvennanna vantaði vegna kórónuveirunnar. Vildu þær forðast smit enda starfa margar þeirra í heilbrigðisgeiranum.

Þættir