Dagur í lífi tiktokstjörnu

FÓLKIÐ  | 22. júní | 12:35 
Tiktokstjarnan og förðunarmeistarinn Embla Wigum segir gott skipulag lykilinn að því að ná að framleiða nægt efni fyrir samfélagsmiðilinn. Allir dagar hjá sér séu þéttbókaðir enda reyni hún að senda frá sér eitt myndskeið á degi hverjum. Dóra Júlía skyggnist inn í líf Emblu í Dagmálaþætti dagsins.

Embla Wigum vinnur í fullu starfi við samfélagsmiðla og sérhæfir sig í förðunarmyndböndum á Tik Tok. Embla er lærður förðunarfræðingur og hefur þróað listform sitt út í óhefðbundna og mjög listræna förðun. Það má ætla að hefðbundinn dagur í lífi tiktokstjörnu sé óhefðbundinn miðað við 9-5-vinnuna en Embla vinnur eftir miklu skipulagi.

Dóra Júlía skyggnist inn í líf Emblu í Dagmálaþætti dagsins. Þætt­irn­ir eru aðgengi­leg­ir áskrif­end­um Morg­un­blaðsins hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.

„Þegar maður er að vinna svona mikið heima eins og ég þá þarf skipulag,“ segir Embla. Hún reynir að gera tvö myndbönd á dag þar sem hún býr til eina förðun fyrir hádegi og aðra eftir hádegi. „Flestir dagar fara í að gera „make-up look“ heima.“

 

 

 

Embla birtir um það bil eitt myndband á dag og gerir stundum þrjú með sömu förðun. Hún segir gerð flestra myndbandanna taka 4-5 tíma, sum meira og önnur minna. Það er því heilmikil vinna á bak við samfélagsmiðla Emblu sem kemur ekki á óvart þar sem myndböndin hennar eru mjög vönduð.

Emblu þykir gott að vera ekkert að flýta sér við gerð myndbandanna og hefur mjög gaman af því að skapa þau og hafa það náðugt á meðan. Hún vinnur með förðunarfyrirtækjum sem styrkja myndböndin og þannig tekst henni að gera þetta að fullu starfi. Myndbönd Emblu hafa náð gríðarlega góðum árangri þar sem hún er með yfir milljón fylgjendur á forritinu TikTok.

Þættir