Byggði á alþjóðlega viðurkenndum aðferðum

VIÐSKIPTI  | 7. júlí | 16:44 
Birna Einarsdóttir segir eðlilegt að gagnrýni komi fram vegna söluferlis Íslandsbanka. Hins vegar hafi alþjóðlega viðurkenndum aðferðum verið beitt við að ákvarða verðlagningu hlutabréfanna.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir eðlilegt að gagnrýni komi fram þegar ráðist er í jafn viðurhlutamikla aðgerð og þá að skrá heilan banka á markað og selja í honum hlut. Hún tekur hins vegar ekki undir gagnrýni þess efnis að bankinn hafi verið seldur á undirverði en gagnrýnendur útboðsins benda á að hlutabréfaverð í bankanum hafi hækkað um 36% frá frumútboði í júnímánuði sem leiddi til þess að ríkissjóður losaði um 35% hlut í bankanum.

Segir hún að alþjóðlega viðurkennd aðferðafræði hafi verið notuð við að ákvarða verð á hlutabréfum í bankanum í tengslum við frumútboðið. Upphaflega var lagt upp með að selja hlutina á verði sem rokkað gæti milli 71 og 79 krónur á hvern hlut. Mikil umframeftirspurn varð til þess að engum tilboðum undir 79 krónum á hlut var tekið.

Spurð út í hverjar hinar alþjóðlega viðurkenndu aðferðir við verðlagninguna væru segir Birna þær einkum byggja á tveimur þáttum.

„Þetta er gert með þeim hætti að þú ert að tala við fjárfesta, það eru fjárfestafundir og svo er verið að þreifa á verðum. Þetta er aðferð sem búið er að nota í mörgum útboðum hérlendis og erlendis. Það er sú leið sem oftast er valin. Svo koma skýrslur greinenda og þar er verið að leggja til verðbil eftir þeim framtíðarplönum sem lögð hafa verið fram.“

Eigandinn sem hefur lokaorðið

Hún ítrekar þó að það sé alfarið eiganda hlutabréfanna að ákvarða endanlega á hvaða verði hann er tilbúinn að selja. Þar hafi ríkissjóður fylgt ráðgjöf sem leidd hafi verið af alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum sem margsinnis hafi haldið utan um ferli af þessu tagi.

 

Birna er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þátt­ur­inn er op­inn öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

Þættir