Landsliðshópur sem getur gert magnaða hluti

ÍÞRÓTTIR  | 12. júlí | 16:45 
„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar ég fór á mitt fyrsta stórmót,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar ég fór á mitt fyrsta stórmót,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sara Björk, sem er þrítug, lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í ágúst 2007, þá sextán ára gömul, þegar hún kom inn á sem varamaður í vináttulandsleik gegn Slóveníu á Laugardalsvelli.

Síðan þá hefur hún farið á þrjú stórmót með íslenska liðinu en hún er á leið á sitt fjórða Evrópumeistaramót næsta sumar með íslenska liðinu á EM 2022 í Englandi.

„Kvennafótboltinn er alltaf að þróast og verða stærri, stórmótin eru engin undantekning þar og þau hafa fylgt þessari þróun,“ sagði Sara.

„Við erum nokkrar í landsliðshópnum núna sem eru með þrjú mót á bakinu sem er gríðarlega mikilvægt, alveg eins og það er mikilvægt að fá inn leikmenn sem eru að upplifa sitt fyrsta mót.

Við erum með ótrúlega góða og hungraða leikmenn sem eru á góðum stað í dag. Hópurinn núna hefur ekki fengið mikinn tíma til þess að vinna saman en hann býr yfir miklum möguleikum,“ sagði Sara meðal annars.

Viðtalið við Söru Björk í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir