Vill spila áfram í hæsta gæðaflokki sem móðir

ÍÞRÓTTIR  | 12. júlí | 17:37 
„Ég hef alltaf verið í líkamlega góðu formi og vonandi mun það hjálpa mér þegar ég sný aftur á knattspyrnuvöllinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Ég hef alltaf verið í líkamlega góðu formi og vonandi mun það hjálpa mér þegar ég sný aftur á knattspyrnuvöllinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sara Björk, sem er þrítug, á von á sínu fyrsta barni í nóvember á þessu ári ásamt sambýlismanni sínum Árna Vilhjálmssyni.

Samningur miðjukonunnar við stórlið Lyon rennur út næsta sumar en hún gekk til liðs við franska félagið frá Wolfsburg í Þýskalandi sumarið 2020.

„Í besta falli fæ ég nýjan samning hjá Lyon og fæ góðan tíma til þess að koma mér aftur í mitt besta form,“ sagði Sara Björk.

„Ég átta mig líka á því að ef ég er ekki í góðu standi þá gæti sú staða komið upp að þeir vilji ekki endursemja við mig. Kannski verður það of íþyngjandi fyrir þá að vera með leikmann í sínu liði sem er með ákveðnar sérþarfir og gæti þurft að ferðast með lítið barn með sér.

Ég tel mig samt búna að skapa mér ákveðið nafn og ég ætti þar af leiðandi að vera með einhverja möguleika í stöðunni, sama hvað gerist,“ sagði Sara Björk.

Viðtalið við Söru Björk í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir