Merkel hyggst ekki skylda fólk í bólusetningu

ERLENT  | 13. júlí | 14:25 
Þýsk stjórnvöld hyggjast ekki feta í fótspor Frakka og annarra þjóða sem hafa skyldað hluta landsmanna til að fara í bólusetningu vegna Covid-19. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, greindi frá þessu í dag.

Þýsk stjórnvöld hyggjast ekki feta í fótspor Frakka og annarra þjóða sem hafa skyldað hluta landsmanna til að fara í bólusetningu vegna Covid-19. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, greindi frá þessu í dag. 

„Við ætlum ekki að fara þá leið,“ sagði Merkel í Berlín í dag þar sem hún heimsótti Robert Koch-heilbrigðisstofnunina.

„Við erum við upphaf ferlis þar sem við erum enn að bjóða upp á bólusetningu, þar sem við eigum meira af bóluefni heldur en fólki sem vill láta bólusetja sig.“

Bólusetning fór hægt af stað í Þýskalandi fyrr á þessu ári en eftir að sumarið gekk í garð þá tóku bólusetningar kipp. Í dag er búið að fullbólusetja 42,6% fullorðinna Þjóðverja. Þá hafa 58,5% þeirra fengið að minnsta kosti eina sprautu. 

Heldur hefur þó dregið úr eftirspurninni undanfarinn hálfan mánuð. Í gær var staðan sú að ekki hafa færri verið bólusettir á einum degi frá því í febrúar. 

Delta-afbrigði kórónuveirunnar, sem er mjög smitandi, ræður nú ríkjum í Þýskalandi. Talsmenn Robert Koch-stofnunarinnar segja að það sé nauðsynlegt að bólusetja 85% fullorðinna Þjóðverja eigi hjarðónæmi að nást. Sumir hafa kallað eftir stefnubreytingu hjá stjórnvöldum. Þeirra á meðal er Wolfram Henn, sem er sérfræðingur í erfðavísindum hjá Saarland-háskólanum sem á sæti í vísindasiðanefnd, sem veitir stjórnvöldum ráðgjöf á sviði bólusetninga. Hann hvatti stjórnvöld í dag til að skylda alla kennara til að gangast undir bólusetningu.

 

Þættir