Ósvífinn áróður um stjórnarskrármál

INNLENT  | 14. júlí | 8:54 
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur telur að nýleg umræða um „nýju stjórnarskrána“ hafi að miklu leyti byggst á ósvífnum áróðri, sem sérstaklega hafi verið beint að ungu fólki á félagsmiðlum.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur telur að nýleg umræða um „nýju stjórnarskrána“ hafi að miklu leyti byggst á ósvífnum áróðri, sem sérstaklega hafi verið beint að ungu fólki á félagsmiðlum. Það hafi verið matað á fullyrðingum um að til væri fullkomin og tilbúin ný stjórnarskrá, sem allan vanda heims leysti, en að vondir og spilltir stjórnmálamenn hefðu með vélun komið í veg fyrir að hún öðlaðist gildi.

Hún segir slíkar samsæriskenningar fráleitar. Kjarni málsins sé sá að það séu algerlega skýrar reglur í stjórnarskránni sjálfri um hvernig henni skuli breytt. Fyrir umræddum breytingum hafi ekki verið réttar forsendur og að þær séu enn ekki fyrir hendi, einmitt vegna þess að það hafi þurft að virða stjórnarskrána.

Þetta kemur fram í viðtali við hana í Dagmálum Morgunblaðsins, en hún segir þær samsæriskenningar og afflutning málsins vera ástæðu þess að hún hafi ákveðið að tjá sig um það.

Fjölmiðlar hafi verið duglegir að segja frá ýmsum uppákomum og gjörningum áhugafólks um breytingar á stjórnarskrá, en hins vegar hafi þeir og aðrir látið algerlega vera að fjalla um efni málsins af þeirri dýpt, sem málið krefjist. Þar ræði um sjálfa stjórnarskrána, grundvöll allra laga og stjórnskipunar landsins, réttaröryggi og mannréttindi þjóðarinnar. Það verði ekki afgreitt með slagorðum á TikTok eða veggjakroti.

Grein í tímariti lögfræðinga

Kristrún skrifaði grein í nýjasta tölublaði Tímarits lögfræðinga, sem mikla athygli hefur vakið, en þar fjallar hún um breytingarreglu stjórnarskrárinnar; fyrirmæli í stjórnarskránni sjálfri um það hvernig henni skuli breytt með löglegum hætti. Hún segir enga tilviljun hvernig búið sé um þá hnúta, afar mikilvægt sé að ekki sé hægt að breyta grunnlögunum í einu vetfangi eða af einum aðila.

Kristrún telur að vinnubrögðin við fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hafi ekki verið til fyrirmyndar, handahófskennd, áhættusöm og til óvissu fallin. Umræðan nú sé því enn á miklum villigötum og á misskilningi byggð.

Dagmál eru streymi Morgunblaðsins, opin öllum áskrifendum, en þau má finna hér.

Þættir