„Get ég staðið undir þessari pressu?“

FÓLKIÐ  | 15. júlí | 13:28 
Guðrún Ýr Eyfjörð, jafnan þekkt sem tónlistarkonan GDRN, vakti mikla athygli fyrir leik sinn í Netflix-seríunni Kötlu þar sem hún fór með hlutverk Grímu, aðalhlutverk seríunnar. Hún segist hafa fengið mikla aðstoð frá samstarfsfólki sínu og þá hafi sérstaklega Þorsteinn Bachmann og Baltasar Kormákur verið henni innan handar með ýmsar aðferðir sem hún gat nýtt sér vel.

Guðrún Ýr Eyfjörð, jafnan þekkt sem tónlistarkonan GDRN, vakti mikla athygli fyrir leik sinn í Netflix-seríunni Kötlu þar sem hún fór með hlutverk Grímu, aðalhlutverk seríunnar. Hún segist hafa fengið mikla aðstoð frá samstarfsfólki sínu og þá hafi sérstaklega Þorsteinn Bachmann og Baltasar Kormákur verið henni innan handar með ýmsar aðferðir sem hún gat nýtt sér vel.

Guðrún segir það hafa hjálpað mikið að Baltasar er leikari sjálfur og hún hafi alltaf upplifað að hann væri með það á hreinu hvað hún var að reyna að gera. Þegar hann sagði henni að taka aðeins færri tilfinningaleg skref vissi hún nákvæmlega hvað hann átti við.

Guðrún Ýr segir þetta hafa verið krefjandi og skemmtilegt ferli en í fyrstu hafi hún verið meðvituð um að hafa litla reynslu í leiklistinni. Hins vegar hafi áratuga tónlistarnám og þekking komið sér að góðum notum.

„Fyrsta daginn þegar við byrjuðum tökur þá fattaði ég bara vá, þetta er alveg eins og að fara upp á svið. Af því að þegar ég er uppi á sviði er ég að reyna að koma einhverjum skilaboðum og einhverjum tilfinningum á framfæri við hlustandann og þetta er ákveðið samtal á milli áhorfendanna og mín.“ Hún segir upplifun sína af tökunum hafa verið ansi svipaða.

„Svo er maður í rauninni bara að gera það, maður er meira að segja kannski bara með manneskju fyrir framan sig sem maður er að tala við og reyna að koma tilfinningum á framfæri. Ég fann bara allt í einu að það er sami tónn í þessu þótt þetta sé alveg sitt hvort lagið. Þannig að það var ótrúlega gaman að geta stækkað á einhvern hátt tónlistina hjá mér með leiklistinni.“

Hún segir að sjálfsögðu mikla ábyrgð hafa fylgt því að fara með aðalhlutverk í svona stóru verkefni. Guðrún Ýr er ekki lærð leikkona og segir hún fólk hafa velt því svolítið fyrir sér í tengslum við þetta mikla verkefni. „Ég fann óöryggi í sjálfri mér sem var „get ég staðið undir þessari pressu?“ því þetta er náttúrlega svo stórt hlutverk. Svo fattaði ég að ég er búin að vera í 20 ár að læra tónlist og hún er svo samstiga leiklistinni að miklu leyti að ég hugsaði bara: Ég er með 20 ára nám í að koma fram og þá er ég bara að fara að nýta mér það í þessu, sem hjálpaði alveg þvílíkt.“

Viðtalið við Guðrúnu Ýr í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir