Þetta eru helstu lúxuslaugar landsins

FERÐALÖG  | 15. júlí | 13:36 
Þar sem er vatn, sérstaklega heitt vatn, þar er fólk. Þessi frístundaiðja, að slaka á og njóta augnabliksins er segull á innlenda og erlenda ferðamenn.

Þar sem er vatn, sérstaklega heitt vatn, þar er fólk. Þessi frístundaiðja, að slaka á og njóta augnabliksins er segull á innlenda og erlenda ferðamenn. Laugarnar eru uppi á fjöllum, við sjávarsíðu eða manngerðar lúxuslaugar en þeim fjölgar sífellt um landið allt. 

Höfundur tók púlsinn, eða réttar sagt hitastigið í þremur baðstöðum á Norður- og Austurlandi í vikunni ásamt hundruðum ef ekki þúsundum annarra og varð hvergi svikinn.

Fyrst til að vera heimsótt var Geosea við Húsavík. Það er einhver rómantík við að liggja í tæplega fjörutíu stiga heitri laug og horfa á stór hvalaskoðunarskipin sigla fram hjá með ferðamenn út á Skjálfandaflóa. Einstakur baðstaður með magnað útsýni.

Næsta stopp var Jarðböðin á Mývatni. Umhverfið þarf ekki að mæra, slík er náttúrufegurðin allt í kring og ekki voru böðin síðri. Þægileg aðstaða og hitastigið temmilegt.

Vök Baths við Urriðavatn, nokkrum kílómetrum frá Egilsstöðum voru svo heimsótt í tæplega tuttugu stiga hita og voru stórkostleg upplifun. Klefarnir voru þægilegir og stórir. Mismunandi baðstaðir þegar út var komið og svo var hægt að kæla sig í Urriðavatninu ef svo bar undir og þörf var á.

Já, það eru fjölbreyttir möguleikar til afþreyingar þegar farið er um landið og baðstaðir sem þessir er sannarlega heimsóknarinnar virði.

Þættir