„Besta ákvörðun sem Biles hefur tekið í lífinu“

ÍÞRÓTTIR  | 29. júlí | 15:44 
„Ég held að þetta sé besta ákvörðun sem Biles hefur tekið í lífinu,“ segir Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona í samtali við mbl.is um ákvörðun bandarísku fimleikakonunnar Simone Biles að draga sig úr keppni á Ólympíuleikunum.

„Ég held að þetta sé besta ákvörðun sem Biles hefur tekið í lífinu,“ segir Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona í samtali við mbl.is um ákvörðun bandarísku fimleikakonunnar Simone Biles að draga sig úr keppni á Ólympíuleikunum.

Andrea Sif hefur um árabil verið okkar fremsta fimleikakona í hópfimleikum. Hún keppir bæði fyrir kvennalið Stjörnunnar og landslið kvenna í hópfimleikum og hefur unnið til fjölda verðlauna með báðum liðum. 

https://www.mbl.is/sport/ol/2021/07/29/hvad_hrjair_simone_biles/

 

„Þetta tilfelli sýnir svo vel hversu mikilvægt er að vera í góðu andlegu jafnvægi,“ segir Andrea Sif en hún hefur ekki heyrt orðið „twisties“ sem Biles segist upplifa, en þekkir vel ákveðna meinloku (e. mentalblock).

„Þegar maður er að keppa og það er mikil pressa á manni af því að fólk veit hver maður er getur hausinn algjörlega stoppað mann,“ segir hún og nefnir að þegar lið Stjörnunnar vann Norðurlandamótið tvö ár í röð í fullorðinsflokki hafi pressan verið orðin gífurleg næst þegar mótið var haldið árið 2019.

 

Gífurleg pressa

„Kannski er þetta pressa aðallega frá manni sjálfum en maður veit alveg að það eru augu á manni. Ég get rétt ímyndað mér pressuna á Biles. Hún er að fara á sína aðra Ólympíuleika eftir að hafa orðið margfaldur heimsmeistari,“ segir Andrea og nefnir að sú staðreynd að leikunum hafi verið frestað um ár hafi líklega ekki hjálpað andlegri hlið Biles.

„Hún hefur ábyggilega átt erfitt með þá hugsun að þurfa að bíða í ár í viðbót og spurt sjálfa sig hvort hún myndi ná markmiðum sínum. Biles fór einnig að bæta við sig erfiðleikastigum og gera stökk sem eru nefnd eftir henni, þar sem hún er fyrsta konan til þess að gera þau. Það hefur verið henni ofviða,“ segir Andrea og bætir við að keppnin í fjölþraut kvenna sem fór fram í dag hafi opnast upp á gátt þar sem Biles sé alltaf svo miklu ofar hinum keppendunum.

„Hún hefur líklega fengið efasemdir eftir undanúrslitin þar sem þau gengu ekki eins og hún hélt að þau myndu ganga þó að hún hafi samt verið fyrst inn. Henni hefur ábyggilega ekki liðið vel úti á gólfinu.“

https://www.mbl.is/sport/ol/2021/07/29/bandariskur_sigur_thratt_fyrir_fjarveru_biles/

 

Þetta hlýtur að hafa verið ótrúlega erfið ákvörðun fyrir Biles?

„Algjörlega. Ég get ekki ímyndað mér að þurfa að taka þessa ákvörðun á þessum stað,“ segir Andrea og nefnir að hún sé nú þegar orðin stressuð fyrir Evrópumótinu í hópfimleikum sem fer fram í haust.

„Maður verður það stressaður að maður finnur fyrir ógleði og líður eins og maður sé að missa máttinn og hafi enga orku. Það er einhver svona skrýtin tilfinning sem kemur utan um mann.“

Mikil fyrirmynd

Andrea segir að Biles sé mikil fyrirmynd fyrir að taka ákvörðunina um að setja andlega heilsu sína í fyrsta sæti.

„Eftir að hafa séð fréttirnar þá hugsar maður, já, þetta er í lagi. Þessi ákvörðun sýnir svo vel að Biles er mennsk þó svo margir haldi að hún sé bara einhver vél,“ segir Andrea Sif og nefnir að fjöldi fólks hafi hrósað Biles fyrir ákvörðunina.

„Ég vona að hún átti sig á að það er allt í lagi að vera svona. Þetta er mikil vitundarvakning um mikilvægi andlegrar heilsu íþróttamanna. Þetta er risastórt skref sem Biles tekur.“

Andrea segir að umræðan um andlega heilsu íþróttafólks hafi mikið batnað undanfarin ár. „Bæði hjá Stjörnunni og í landsliðinu erum við með íþróttasálfræðing í teyminu sem hefur mikið hjálpað við pressuna sem fylgir íþróttinni. Það er mikilvægt að vita að ef eitthvað kemur upp á þá gerist það bara og þú getur ekki breytt því. Lífið er ekkert búið þó mistök valdi vissulega vonbrigðum.“

https://www.mbl.is/sport/ol/2021/07/29/er_i_lagi_ad_vera_ekki_i_lagi/

Þættir