Það er svo margt sem býr mann til sem höfund

INNLENT  | 28. júlí | 15:30 
Í haust sendir Gerður Kristný frá sér tuttugustu og sjöttu bókina á tuttugu og sjö árum, framhald bókarinnar Iðunn & afi pönk, sem kom út á síðasta ári. Í viðtalsþættinum Dagmáli segir Gerður frá pönkafa Iðunnar og frá sjálfri sér.

Í haust sendir Gerður Kristný frá sér tuttugustu og sjöttu bókina á tuttugu og sjö árum, framhald bókarinnar Iðunn & afi pönk, sem kom út á síðasta ári. Í viðtalsþættinum Dagmáli, sem aðgengilegur er áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is, segir Gerður frá pönkafa Iðunnar og frá sjálfri sér.

Gerður Kristný var mikill lestrarhestur og fór snemma að skrifa sögur sjálf. Fyrsta bókin kom út 1994 og sú tuttugasta og sjötta er væntanleg í haust, eins og getið er. Bækurnar eru ekki bara margar heldur eru þær ólíkar, því Gerður hefur gefið út barnabækur, ljóðabækur, skáldsögur, reynslusögu, ævisögu og smásagnasafn. Bækur hennar hafa líka verið verðlaunaðar, enda hefur hún hreppt Íslensku bókmenntaverðlaunin, Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur, Ljóðstaf Jóns úr Vör, Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, Blaðamannaverðlaun Íslands, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og að auki Viðurkenningu IBBY fyrir barnabækur sínar.

Gerður segir að þótt henni hafi snemma liðið eins og hún gæti orðið skáld hafi henni ekki dottið í hug að það væri hægt að lifa af því að vera rithöfundur. „Ég hélt að ég yrði kennari og skáld, maður fréttir náttúrlega af Vilborgu Dagbjartsdóttur og Stefáni Jónssyni, þetta voru allt höfundar sem væru barnaskólakennarar og skáld, þannig að ég sá það lengi vel fyrir mér. Það var ekkert fyrr en ég var búin að gefa út fyrstu bókina mína, Ísfrétt, ljóðabók sem kemur út 1994, þá hitti ég jafnaldra minn á gangi hjá Hallærisplaninu, ég man meira að segja hvar við vorum stödd þegar hann segir: Heyrðu. þú getur farið að sækja um listamannalaun. Ég svaraði: Hvað er það, aldrei heyrt um það.“

Gerður lauk námi í frönsku í Háskólanum með bókmenntafræði sem aukafag og fór síðan í nám í hagnýtri fjölmiðlun, enda langaði hana til að vera blaðamaður, vann hjá Tímanum og Eintaki áður en hún fór að vinna hjá tímaritaútgáfunni Fróða og varð á endanum ritstjóri Mannlífs. „Það var mjög skemmtilegt að ritstýra blaði, það er gaman, þegar maður fær að hafa töglin og hagldirnar og velja efni og það er mjög skapandi. Það er óskaplega skapandi að sjá tímarit verða til, lesa yfir prófarkir, ákveða á hvaða síðu hvert viðtal verður, raða þessu smekklega upp, setja inn myndasyrpur. Veistu, ég hef þetta oft í huga þegar ég sem ljóðabálka, ég veit að inn á milli þyngslanna verður að létta aðeins geð lesandans með fallegum myndum, alveg eins og maður gerði á Mannlífi.

Það er svo margt sem býr mann til sem höfund, öll popptónlistin, og fólkið sem maður hefur hitt og námið og starfsreynslan, þetta kemur allt heim og saman þegar maður fer síðan að skrifa bók.“

Allt viðtalið við Gerði má sjá með því að smella hér.

Þættir