Keyptu Kerið á tíu milljónir

VIÐSKIPTI  | 11. ágúst | 16:12 
Hrein tilviljun réð því að fjórir vinir tóku sig saman og keyptu Kerið í Grímsnesi um síðustu aldamót. Kaupverðið var tíu milljónir en ríkissjóður hafði neitað að leysa náttúruvættið til sín fyrir mun lægri fjárhæð.

Hrein tilviljun réð því að fjórir vinir tóku sig saman og keyptu Kerið í Grímsnesi um síðustu aldamót. Kaupverðið var tíu milljónir en ríkissjóður hafði neitað að leysa náttúruvættið til sín fyrir mun lægri fjárhæð.

Óskar Magnússon, einn fjórmenninganna sem standa að Kerfélaginu í Grímsnesi, lýsir því í viðtali í Dagmálum hvernig kaupin á Kerinu komu til.

Í ýsu hjá mömmu

„Það bar þannig til og var raunar bara tilviljun að ég heyrði í fréttatíma í Ríkisútvarpinu þegar ég var að borða ýsu í hádeginu hjá mömmu minni að það var viðtal við Helgu á Miðengi en Kerið er í landi Miðengis [...] ég heyrði hana lýsa því að samningaviðræðum við ríkið, það hefði slitnað upp úr þeim og hún var að lýsa vanþóknun á því. Þau voru búin að gefast upp á því að halda þessu úti fyrir eigin vélarafli og töldu að þetta ætti eðlilegar heima hjá ríkisvaldinu eins og sakir stóðu þá.

Hvað á ég að segja konunni minni?

Eftir að hafa hlýtt á fréttirnar ákvað Óskar að slá á þráðinn til Helgu og reyndist þá grunur hans réttur. Ekki var um miklar fjárhæðir að tefla. Sennilega hafi Miðengisfólk verið með verðmiða upp á átta milljónir í huga en að ríkisvaldið hafi ekki viljað teygja sig upp fyrir sex. Spurði Óskar hana því næst hvort hún væri reiðubúin til að selja sér Kerið og tók hún ekki illa í hugmyndina.

Í framhaldinu hitti ég félaga mína, Sigurð Gísla og Jón Hagkaupsmenn og Ásgeir Bolla sem kenndur er við Sautján. Ég sagði þeim að nú þyrftum við að kaupa Kerið. Þeir horfðu á mig furðu lostnir og spurðu hvaða skýring væri á því af hverju við ættum að kaupa Kerið. Ég man að Sigurður Gísli sagði: „hvað á ég að segja konunni minni, ef hún spyr af hverju keyptir þú Kerið? Á ég að segja bara, það er vegna þess að Óskar vildi það eiginlega?” Og ég sagði honum að það væri frambærileg ástæða.

mbl.is

Óskar rifjar þetta upp í léttum dúr en segir að undir niðri hafi þó blundað sú ástæða að þeir höfðu allir, bæði saman og hver í sínu lagi komið að náttúruvernd með einhverjum hætti og þetta hafi kallað á hann. Eitthvað hafi þurft að gera til þess að koma hlutum í betra horf á staðnum sem var að drabbast niður.

Verðmiðinn 27,5 milljónir fært til verðlags dagsins

Miðengisfólkið auglýsti hins vegar Kerið til sölu. Tvö tilboð bárust. Annað frá fjórmenningunum og var því tekið. Hljóðaði það upp á 10 milljónir króna. Miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs, jafngildir það því að kaupverðið væri 27,5 milljónir í dag.

Segir Óskar að engum þyki það há fjárhæð í dag en það hafi þó verið mun hærra verð en ríkissjóður var tilbúinn að greiða. Fært til verðlags dagsins í dag virðist sem samningar milli bændanna á Miðengi og ríkisins hafi strandað á u.þ.b. 5 milljónum króna. Eigendurnir vildu sem svarar til ríflega 20 milljóna króna en ríkið ekki viljað borga meira en 15 milljónir.

Þætt­ir Dag­mála eru op­nir öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á viðtalið við Óskar í heild sinni hér.

Þættir