Ögmundur Jónasson sá eini sem fær frítt inn

VIÐSKIPTI  | 11. ágúst | 16:22 
Mikil sátt ríkir um gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi að sögn Óskars Magnússonar, eins fjögurra eigenda náttúruvættisins. Hann segir að allir greiði fyrir aðgang að Kerinu nema Ögmundur Jónasson.

Slíkur var orðinn ágangur á landið í kringum Kerið í Grímsnesi árið 2013 að eigendur þess ákváðu að hefja almenna gjaldtöku af þeim sem berja vildu náttúruvættið augum. Þá höfðu þeir átt það í 13 ár og aldrei þegið krónu frá þeim sem sóttu staðinn heim.

Mikil sátt hefur skapast um þetta fyrirkomulag að sögn Óskars Magnússonar, sem er gestur Stefáns Einars Stefánssonar í Dagmálum, streymisþætti sem aðgengilegur er áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is. Hann keypti Kerið við þriðja mann um aldamótin síðustu og hefur frá þeim tíma staðið fyrir mikilli uppbyggingu þjónustuinnviða við Kerið sem miða að því að auka aðgengi ferðamanna að staðnum og vernda hina viðkvæmu náttúru sem þar er að finna um leið.

Umhverfisstofnun hart á móti

Hann segir að margir hafi lagt stein í götu Kerfélagsins, sem heldur utan um eignarhlut hans, Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona og Ásgeirs Bolla Kristinssonar á Kerinu, þegar ákveðið var að ráðast í gjaldtökuna til að afla tekna til viðhalds staðarins.

„Umhverfisstofnun fór fram gegn okkur opinberlega og ýmsir ráðamenn og svo framvegis. Enginn vildi þó takast á við okkur að lögum eins og við báðum þá um. Við sögðum bara að ef þið teljið að við höfum gerst brotlegir, viljið þið þá ekki bara prósessera það með réttum hætti. Við skulum þá takast á um það. Það var ekki gert. Það var bara gert með neikvæðum áróðri, bréfaskiptum og orðsendingum frá Umhverfisstofnun og fleiri ráðamönnum í fjölmiðlum. Og við þurftum að standa það af okkur og gerðum það.“

Segir Óskar að áróðursmönnum hafi snemma orðið nokkuð ágengt í að draga upp neikvæða mynd af gjaldtökunni við Kerið.

 

 

„Það tókst mjög snemma hjá þeim sem voru mótfallnir þessu að kalla þessa gjaldtöku gjald fyrir að horfa á íslenska náttúru. Það er mjög symptaískt að segja svoleiðis hlut, maður skildi það. Ögmundur Jónasson var þar fremstur í flokki. Öflugur talsmaður og ekkert lamb að leika sér við,“ segir Óskar.

„Ögmundur borgar ekki inn í Kerið í dag. Hann er eini maðurinn sem fær frítt og það vita allir sem þar vinna. Það er gert til þess að hann fái ekki tækifæri til þess að hafa uppi uppistand og málflutning þarna á staðnum.“

Þætt­ir Dag­mála eru op­nir öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á viðtalið við Óskar í heild sinni hér.

Þættir