Hefur áhyggjur af framtíð karlalandsliðsins

ÍÞRÓTTIR  | 20. ágúst | 16:49 
„Mér finnst við ekki eiga nægilega marga góða unga leikmenn eins og staðan er í dag,“ sagði Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Mér finnst við ekki eiga nægilega marga góða unga leikmenn eins og staðan er í dag,“ sagði Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ragnar, sem er 35 ára gamall, sneri heim úr atvinnumennsku á dögunum og samdi við uppeldisfélag sitt Fylki eftir fjórtán ár í atvinnumennsku.

Hann er á meðal leikjahæstu landsliðsmanna Íslands frá upphafi með 97 A-landsleiki og hefur farið á tvö stórmót með íslenska liðinu, EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.

„Það er til fullt af efnilegum strákum en þetta er ekki nálægt því að vera eins og þegar Jói [Jóhann Berg Guðmundsson] og Gylfi [Gylfi Þór Sigurðsson] og fleiri komu inn í hópinn á einu bretti,“ sagði Ragnar.

„Það fer að koma tími á þetta lið sem við eigum og vonandi fer maður að heyra fleiri nöfn nefnd til sögunnar í kringum landsliðið. Það eru margir strákar að standa sig ágætlega erlendis en alls ekki nógu margir,“ sagði Ragnar meðal annars.

Viðtalið við Ragnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

Þættir